139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er afar sérstök umræða. Hér tala menn um hvernig eigi að virkja jarðhita og hvernig eigi að vera með iðnaðarstefnu og annað slíkt. Það kemur mér mjög á óvart að heyra að hv. frummælandi vilji að farið verði að drita niður verksmiðjum uppi í Gjástykki og Bjarnarflagi og upp við Mývatn, í þessum náttúruperlum. Við þingmenn verðum náttúrlega að taka okkur saman um það að stöðva svona hugmyndir. Svona umhverfissóðaskapur gengur ekki, það er ótækt að menn gæli við þetta. (BJJ: Hneyksli.) Þetta er algjört hneyksli, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson segir utan úr sal. (Gripið fram í.)

Síðan bætir hæstv. umhverfisráðherra um betur og fer að tala um hvernig eigi að nýta orkuna í iðrum jarðar (MÁ: Sem auðvitað hefur ekki snefil af þekkingu á …) og bendir á að ekki megi draga orkuna of hratt úr auðlindunum til að (Gripið fram í.) þær haldi jöfnum þrýstingi. En nú vitum við að í skipulagi fyrir svæðið er algjörlega búið að ganga úr skugga um það og gefa leyfi fyrir u.þ.b. 500 megavöttum. Við erum ekki einu sinni að tala um svo mikið. Það er þá það sem hún kallar á sjálfbæran hátt, en er í daglegu tali kallað að auðlindin standi undir þeirri nýtingu sem er lögð á hana.

Því miður er tími minn búinn, en ég hefði viljað segja svo margt fleira um þá umræðu sem hér er í gangi. (Gripið fram í.)