139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

ástandið í arabalöndunum og ábyrgð vestrænna ríkja.

[13:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er mjög mikilvægt að við stöndum saman í því að verja það fólk sem verið er að níðast á með hervaldi og öðrum hætti. Við hljótum líka að spyrja okkur hvenær réttlætanlegt er að grípa inn í með hervaldi? Við höfum séð það áður og megum passa okkur á því að nota ekki örbirgð fólksins, vandamál fólksins, þær hörmungar sem nú eru yfir t.d. íbúum Líbíu til þess að ráðast inn í landið og beita hervaldi, til þess eins að gæta viðskiptahagsmuna, þá tala ég um þjóðir heimsins. Ef við ætlum að beita slíku valdi verður það klárlega að vera í þágu fólksins. Það er væntanlega ekki gert nema undir hatti Sameinuðu þjóðanna eða einhverju slíku. Ég get ekki séð að hægt sé að réttlæta það að NATO eða einstök ríki fari þarna inn — nú tala ég fyrir mig persónulega — ef það er ekki gert undir merki Sameinuðu þjóðanna því að það er of mikið um það. Við sjáum bara viðskiptatengsl út af olíu, vopnasölu og slíku, það er það sem ræður för hjá mörgum vestrænum þjóðum.

Við hljótum líka að spyrja okkur: Eigum við Íslendingar að beita okkur fyrir því að stöðva vopnasölu til annarra ríkja þar sem einræðisherrar ríkja, þar sem vopnaframleiðsluríki innan Evrópusambandsins og annars staðar selja þeim vopn sem níðast á þjóðum sínum? Ég segi já. Við eigum að beita okkur fyrir því á vettvangi alþjóðasamfélagsins að grípa þar inn í áður en við verðum vitni að frekari blóðsúthellingum í Afríku, í arabaheiminum og annars staðar.

Sumir Íslendingar hafa gjarnan þegar vel hefur gengið látið taka mynd af sér með arabahöfðingjum og öðrum slíkum. Ætlum við að halda því áfram án þess að gera athugasemdir (Forseti hringir.) við hvernig þeir stjórna löndum sínum og hvernig viðskipti fara þar fram? (Gripið fram í.)