139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum nú í þeirri skrýtnu stöðu — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um hljóð í salnum, bara einn fund í þingsalnum. Gefið ræðumanni hljóð.)

Fæ ég ekki leiðréttan tímann líka?

(Forseti (ÞBack): Þingmaður hefur orðið.)

Virðulegi forseti. Nú erum við í þeirri skrýtnu stöðu að hér er komin til Alþingis tillaga til þingsályktunar um að fela Alþingi og forseta Íslands að tilnefna þá 25 aðila sem hlutu gervikosningu, má kalla það, til stjórnlagaþings. Eins og alþjóð veit úrskurðuðu sex dómarar Hæstaréttar kosninguna ógilda og þar með var sú kosning fallin um sjálfa sig.

Það má segja að lýðræðisumbótavinstristjórnin hafi kolfellt þá góðu hugmynd sem stjórnlagaþingið annars var. Það var tekin ákvörðun um að fara út fyrir þessa veggi með stjórnskipunarvald það sem Alþingi hefur, efna til stjórnlagaþings sem Framsóknarflokkurinn studdi hér dyggilega enda var stjórnlagaþing á stefnuskrá Framsóknarflokksins. Ríkisstjórninni, framkvæmdarvaldinu, mistókst herfilega í þessari kosningu og hefur gert landið að athlægi á alþjóðavísu þar sem við erum gamalt lýðræðisríki, en framkvæmdarvaldið gat ekki einu sinni séð til þess að hér færi fram lögleg kosning. Þetta er nokkuð sem kemur til með að sitja bæði í ungum og eldri Íslendingum, hvaða ofbeldi þessi ríkisstjórn beitir hér til að koma málum í gegnum þingið. Raunverulega nánast hvert einasta lagafrumvarp sem kemur fyrir þingið frá framkvæmdarvaldinu er meingallað og mjög gölluð lög fara í gegnum Alþingi, því miður, vegna þess að það er ekki til staðar heildaryfirsýn, ekki sú yfirgripsmikla þekking sem þarf að beita við túlkun þessara laga og annarra frumvarpa sem fara hér í gegn.

Ég nefni sem dæmi það mál sem er tekið nú með afbrigðum inn á þennan fund, frumvarp til laga um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Hér voru sett lög um þjóðaratkvæðagreiðslur fyrir ári, í fyrrasumar, en þegar á að beita þeim í fyrsta sinn kemur í ljós að þau eru svo meingölluð að það þarf að gera meiri háttar breytingar á þeim. Þetta er alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra brást við tillögu minni um lagaskrifstofu Alþingis á þann hátt að ekki væri hægt að fela Alþingi að hýsa þessa stofnun. Það var stofnuð lagaskrifstofa í forsætisráðuneytinu en ég veit ekki til að nokkurt frumvarp hafi farið þar í gegnum lögfræðilegan yfirlestur. Svo virðist a.m.k. ekki vera miðað við það hvernig málin koma búin til þingsins.

Eins og ég sagði áðan vorum við framsóknarmenn með það á kosningastefnuskrá okkar að ný og nútímaleg stjórnarskrá yrði samin af stjórnlagaþingi þar sem þjóðkjörnir fulltrúar eiga sæti. Þessari tillögu fylgdum við þingmenn Framsóknarflokksins alveg þangað til að nú er búið að ógilda stjórnlagaþingið með eftirminnilegum hætti.

Þá erum við komin í nýja stöðu og verðum að bregðast við hlutunum upp á nýtt því að þrátt fyrir að kosningastefnuskrár flokkanna hafi verið samdar gerast atburðirnir svo hratt hér á landi að það verður alltaf að bregðast við á hverjum degi fyrir sig.

Varðandi það sem liggur hér fyrir er þetta komið svo óralangt í burtu frá því að vera nokkurt stjórnlagaþing. Meginmarkmiðið með stjórnlagaþingshugmyndinni var einmitt að færa valdið frá þessum hópi sem þjóðin kallar þingmenn og nefnir oft illum nöfnum, að okkur væri ekki treystandi til að semja hér nýja stjórnarskrá. Það var hugmyndin. Hvað leggur ríkisstjórnin núna til? Jú, ríkisstjórnin leggur til með þingsályktunartillögu þessari að við alþingismenn veljum að tillögu hennar þetta fólk sem var kosið inn á stjórnlagaþingið, og hvað er þá annað um að vera en að þingmenn blanda sér með afgerandi hætti í þetta svokallaða stjórnlagaþing sem átti að vera alveg hlutlaust?

Ég hef komið með tillögu í mínum þingflokki um þá leið að úr því að það á að — má ég fá hljóð, frú forseti? — notast við þessa 25 aðila sem gáfu kost á sér og hlutu þetta kjör — samúð mín er öll hjá þeim því að þeir hafa náttúrlega verið í miklum rússíbana — eigi bara hreinlega að setja alla þá 522 frambjóðendur sem tóku þátt í kosningunni í einn pott og draga af handahófi 25 nöfn. Það væri langtum eðlilegri niðurstaða úr því að það á að notast við þessa einstaklinga.

Þjóðin veit að ég var með efasemdir um sætishlutinn. Það þurfti að ná ákveðnum sætishlut og 11 aðilar náðu honum. Það voru 25 aðilar sem fengu kjörbréf, það þurfti ekki að beita jöfnunarákvæðinu um kynjahlutföllin eftir kosninguna, en ég minni á að til þess að fá niðurstöðu á stjórnlagaþinginu þurfti að færa atkvæðin 509 sinnum. Nú hefur það gerst að einhverjir aðilar ætla að hafna því að taka sæti eftir þessum leiðum sem lagt er til í þingsályktunartillögunni og ætla sér ekki að sitja þetta þing, þetta gerviþing verð ég að kalla það.

Þá vaknar spurningin: Hvernig á að finna út þá næstu á eftir? Það var búið að færa atkvæðin og nýta þau 509 sinnum. Þetta er byggt á afar veikum grunni, þetta er svo mikið yfirklór og kattarþvottur, þetta er einungis gert til að ríkisstjórnin þurfi ekki að afskrifa þær 650 milljónir sem nú þegar er búið að leggja í þingið. 650 milljónir hafa nú þegar farið í misheppnað stjórnlagaþing.

Ég spyr þá um leið hæstv. forsætisráðherra fyrst hún er hér í salnum: Hvað gerir starfsfólkið sem er búið að ráða á stjórnlagaþingið? Hvað er starfsfólkið að gera? Það var búið að leigja húsnæði, það var búið að ráða framkvæmdastjóra, búið að ráða þingverði og ræðuritara. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Þetta gerði ríkisstjórnin allan tímann á meðan vitað var að kærur lágu fyrir hjá Hæstarétti.

Ríkisstjórn sýnir fullkomið ábyrgðarleysi í þessu máli, en svona á að redda þessu fyrir horn (Gripið fram í.) til þess að það þurfi ekki að afskrifa í ríkisreikningi (Gripið fram í.) 650 milljónir. Nú grípur hæstv. forsætisráðherra (Forsrh.: Já, …) mikið fram í, ég heyri ekki alveg hvað hún segir, en framkvæmdin á stjórnlagaþingskosningunni var hjá dómsmálaráðuneytinu, þ.e. þeirri þrígreiningu ríkisvaldsins sem í daglegu tali kallast framkvæmdarvald. Framkvæmdarvaldinu er stýrt af ríkisstjórninni og það ætti hæstv. forsætisráðherra best að vita því að hún stýrir því sjálf. (Forsrh.: Hver skipaði …?)

Ég hef komið með þá tillögu og ætla að leggja hana fram sem breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir að sú sjö manna stjórnlaganefnd sem var tilnefnd af Alþingi á sínum tíma skili drögum að frumvarpi til Alþingis sjálfs. Hún hafði það hlutverk að halda þúsund manna þjóðfund sem heppnaðist einstaklega vel og átti að safna saman öllum gögnum, öllum skrifuðum pappírum um stjórnarskrárbreytingar, búa til nokkurs konar stjórnlagaþingspott, upplýsingapott, og skila af sér til stjórnlagaþingsins. Ég ætla sem sagt að gera það að tillögu minni að þessi sjö manna nefnd skili drögum að frumvarpi til Alþingis.

Það vill nefnilega þannig til, frú forseti, að stjórnskipunarvaldið liggur hjá Alþingi. Hefðu verið stjórnarskrárbreytingar í síðustu alþingiskosningum hefðu 63 þingmenn sem voru kosnir 2007 kosið um frumvarp til stjórnskipunarlaga við alþingiskosningarnar 2009 og svo hefðu 27 nýir þingmenn sem komu inn í kosningunum 2009 greitt þeim atkvæði sitt, samtals 90 lýðræðislega kjörnir fulltrúar. Hvað gætum við haft það betra? Til að útskýra einmitt þetta með þjóðaratkvæðagreiðslurnar er það þannig að þegar það eru stjórnskipunarbreytingar er það þjóðaratkvæðagreiðslan, alþingiskosningarnar sjálfar, sem er um stjórnarskrárbreytingar.

Mér finnst eins og það sé búið að tapa grunninum í þessu máli enda er þetta yfirklór ríkisstjórnarinnar eins og ég sagði áðan. Ég held að þetta sé fyrst og fremst gert á þeim grunni að reyna að breiða yfir það að svo mikið fjármagn er farið í súginn. Ef þessi þingsályktunartillaga nær fram að ganga fer þetta að nálgast 1 þús. milljónir, 1 milljarð, og það er ekkert sem kemur út úr þessu annað en drög að tillögum. Gleymum því ekki, þingmenn og ágætur forseti, að Alþingi hefur alltaf lokaorðið.