139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:52]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að það er þekktur búningur skæruliða í heiminum, svokallaður felubúningur. Þetta er því miður sá búningur sem hluti ríkisstjórnar Íslands, með hæstv. forsætisráðherra í fararbroddi, hefur klæðst til að slá glýju í augu landsmanna með falsvonum um að stjórnlagaþing sé eitt fært um að leysa úr ákveðnum deiluatriðum sem varða endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Hún er með ólíkindum þessi sýndarmennska af hálfu forsætisráðherra, að stilla dæminu þannig upp og vekja falsvonir, gera úlfalda úr mýflugu, vegna þess að það er allt annað mál að endurskoða stjórnarskrá Íslands en setja lög sem þarf að framfylgja í landi okkar.

Hæstiréttur hefur úrskurðarvald og það vald þurfum við að meta hvort sem okkur líkar betur eða verr. Mörg dæmi eru um það, virðulegi forseti, að Hæstarétti Íslands hafi orðið skreipt á skötunni og ugglaust gert mistök eins og fylgir mannanna verkum. Ekki ætla ég að tíunda það en mörg eru dæmin. Eftir sem áður hefur Hæstiréttur Íslands úrslitaorðið. Orð dómarans verða að standa hvort sem þau eru sanngjörn eða ekki. Þess vegna er það til skammar fyrir hæstv. ríkisstjórn að ætla að sigla gegn úrskurði Hæstaréttar í máli sem á að auka virðingu Íslands en ekki veikja hana.

Það er búið að halda þjóðfund, sem tókst vel. Stjórnlaganefnd hefur skilað merkilegri skýrslu. Það hefur ekki verið kallaður til í þetta dæmi, eins og vera ber, númer eitt, tvö og þrjú, hópur þingmanna. Hópur þingmanna á að hafa frumkvæðið að því að hnýta upp þær breytingar sem þarf að gera með aðstoð stjórnsýslufræðinga, styðjast við almenn sjónarmið í þjóðfélaginu og ganga þannig frá að vel megi við una.

Nú er það svo að stjórnarskrá er miklu frekar predikun eða hugvekja en lög. Hún er viðmiðun sem má túlka til margra átta, byggist á ákveðnum siðferðisgrunni, reynslu, hjartslætti þjóðar og vilja til góðra verka hvar sem staðið er í þjóðfélaginu. Það er stjórnarskrá. Það hefur líka sýnt sig í sögunni allri að stjórnarskrár og einstakar greinar þeirra eru oft áhrifalausar, þær sem ganga jafnvel lengst í því að tryggja almenn mannréttindi. Þrælahald í Bandaríkjunum blómstraði í skjóli stjórnarskrár þar sem lögð var grundvallaráhersla á að allir menn væru jafnir. Í stjórnarskrá Stalíns, annars mesta fjöldamorðingja sögunnar, var mannréttindakaflinn sá lengsti í heimi.

Þetta segir, virðulegi forseti, mikið um gildi stjórnarskrárinnar. Samt viljum við hafa hana og hún þarf að vera, hún á að tryggja ákveðna línu, ákveðið verklag en ekki hvernig gengið er til verka í öllum þáttum. Svo koma atriði sem þarf að slá í gadda, svo sem eins og það, og er löngu tímabært, að setja fast og ákveðið í stjórnarskrá að íslenska þjóðin eigi auðlindir landsins. En það er ekki sama hvernig það er orðað. Ef það er orðað eins og ég nefndi hér er það ekki haldtækt gagnvart alþjóðalögum og rétti. Við þurfum að vanda mjög til verka þannig að stjórnarskrárbundinn eignarréttur Íslendinga á auðlindum landsins, hvort sem er til lands eða sjávar, standist tímans tönn út yfir líf og dauða. Þetta þarf að vinna á faglegan hátt og vanda til þess.

Þegar litið er á afrakstur þjóðfundar og þeirra sem hafa vélað um breytingar á stjórnarskrá eru það tiltölulega fá atriði en auðvitað mikilvæg sem komu út úr því — í hnotskurn: heiðarleiki, réttlæti, jafnrétti o.s.frv., allt hlutir sem við viljum tryggja og byggja á. Þess vegna getum við ekki leyft okkur að vaða gegn Hæstarétti Íslands.

Í merkilegri grein í Morgunblaðinu mánudaginn 28. febrúar, eftir Þráin Eggertsson háskólakennara, segir m.a., með leyfi forseta:

„Og nú flýgur sú saga um hugarheima að gömul og slitin stjórnarskrá lýðveldisins hafi átt mikla sök á fjármálahruni og spillingu á nýrri öld. Hugmyndasmiðir segja ábúðarfullir: án nýrrar stjórnarskrár muni sagan endurtaka sig; vönduð ný stjórnarskrá mun gerbreyta framferði stjórnmálamanna, auðmanna og almennings.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Öll vitum við að Hæstiréttur Íslands hefur nýlega ógilt kosningu til stjórnlagaþings og stjórnvöld og almenningur glíma við vandann sem upp er kominn. Gamall ritstjóri segir í bloggi sínu, að besta lausnin sé að gefa Hæstarétti kjaftshögg. Hins vegar er haft eftir gömlum lagaprófessor að fyrsta skref okkar eigi að vera að fylgja núgildandi lögum. Kjaftshögg á Hæstarétt er argentínska leiðin. Í Argentínu í marga áratugi hafa allar ríkisstjórnir nema ein vanvirt hæstarétt landsins: hunsað dómsniðurstöður, fangelsað dómara, fjölgað dómurum til að fá hagstæðar niðurstöður eða beinlínis lokað dómnum. Því má bæta við að stjórnarskrá Argentínu er eftirmynd þeirrar bandarísku.

Fjölmiðlar flytja þá frétt að á Alþingi Íslendinga sé sennilega meiri hluti fyrir frumvarpi um að hunsa dóm Hæstaréttar og fela þeim sem kjörnir voru ólöglega til stjórnlagaþings að skrifa nýja stjórnarskrá. Það er einnig haft eftir flestum þeirra sem upphaflega náðu kjöri að þeir muni sætta sig við þennan gjörning.

Hjá norrænni þjóð eru þetta ótrúleg tíðindi. Hvað er á seyði? Sjá menn ekki að böðulgangur af þessu tagi við gerð nýrrar stjórnarskrár er sömu ættar og böðulgangur fjármálafurstanna fyrir og eftir hrun? Rætur hrunsins voru einmitt í vinnubrögðum af þessu tagi. Ef fram fer sem horfir verður ný stjórnarskrá áttaviti sem í vantar nálina og vísar samtímis til allra átta. Ég leyfi mér að vona að þeir sem nú syngja laglaust finni hinn rétta tón áður en skaðinn er skeður.“

Virðulegur forseti. Þetta er mergurinn málsins. Kosningarnar voru því miður ólöglegar og þá verður svo að vera. Maður færir ekki skemmdan fisk frá bakborðshlið á dekki yfir á stjórnborðshlið, fiskurinn lagast ekkert, hann er jafnónýtur.

Það mætti til að mynda, til að landið allt nyti sannmælis, velja sjö borgara úr hverju kjördæmi, sjö almenna borgara, venjulega Íslendinga, og láta þá leggja á ráðin með þeim sem eiga að véla um endurskoðun stjórnarskrárinnar í samstarfi við (Forseti hringir.) þingmenn og stjórnsýslufræðinga.