139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talar um að aðkomu almennings þurfi að gerð stjórnarskrárinnar. Ég tek undir hvert einasta orð þingmannsins en minni á að stjórnskipunarvaldið liggur hjá Alþingi, hér inni með tveimur þingum og þingkosningum á milli. Þar er aðkoma almennings að málinu, hér sitja 63 lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem fara með það vald núna. Tekin var ákvörðun um að fara með málið út fyrir veggi þessa húss og við sjáum hvernig það endaði hjá þessari vonlausu, verklausu ríkisstjórn. Jú, í fyrsta sinn í lýðræðissögunni voru dæmdar ógildar kosningar. Það er mikill álitshnekkir fyrir ríkisstjórnina en samt situr hún enn.

Þingmaðurinn spyr: Af hverju er þetta mál lagt fyrir Alþingi? Af hverju sá hæstv. forsætisráðherra ekki um að skipa í ráðið? Það er góð spurning (Forseti hringir.) en í máli eins flutningsmanna tillögunnar áðan, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, kom fram að þær stöllur (Forseti hringir.) þrjár sem flytja þingsályktunartillöguna vonast til að (Forseti hringir.) ríkisstjórnin styðji málið. Það segir sitt.