139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að það þingmál sem við ræddum núna væri redding án þekkts forskeytis og það blasir við hverjum einasta manni. En ræða hv. þm. Magnúsar Orra Schrams var líka aðferð til að redda sér inn í umræðuna því að í raun og veru var ekki um að ræða eiginlegt andsvar við því sem ég sagði. Hann var fyrst og fremst að koma kjarnanum í afstöðu sinni til málsins á framfæri á einni, tveimur mínútum. Þar erum við hins vegar algerlega ósammála.

Ég færði fyrir því rök að til væru aðrar leiðir sem væru mun eðlilegri, lýðræðislegri og skjótvirkari til að fara í endurskoðun á stjórnarskránni. Það hefur a.m.k. ekki strandað á Sjálfstæðisflokknum að ganga til verka og endurskoða stjórnarskrána. Það höfum við sýnt og því höfum við margoft lýst yfir. Að mínu mati er mun minni ágreiningur um ýmis efni en menn hafa látið í veðri vaka og sumum stjórnmálaflokkum virðist henta það núna að magna upp ágreining í málum sem ekki er ágreiningur um.

Af því að hv. þingmaður talaði um að með þeirri leið, reddingarleiðinni, sem lagt er til að farin verði væru tafirnar minnkaðar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur t.d. lýst því yfir að við séum tilbúin að hefja tafarlausa vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Fyrir liggja veigamikil gögn frá stjórnlaganefnd sem samstaða var um á Alþingi að skipuð yrði til að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hægt væri að fara með þá vinnu og kynna almenningi, gefa honum kost á að koma að vinnunni með einhverjum hætti og leggja síðan málið endurskoðað fyrir Alþingi. Það væri bæði skjót og lýðræðisleg leið við að endurskoða stjórnarskrána. Sú leið sem lagt er til að farin verði hefur ekkert með lýðræðið að gera. Það er bara (Forseti hringir.) einföld redding til að bjarga sér fyrir horn af því að ríkisstjórnin er komin í algert öngstræti (Forseti hringir.) með málið.