139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða merkingu hv. þingmaður leggur í hugtakið farsælt. Nú gerist það í fyrsta skipti að ekki er lengur mögulegur ágreiningur um inntak stjórnarskrárinnar heldur er verið að efna til ágreinings um sjálft formið, þá aðferð sem menn vilja hafa við að undirbúa tillögur að endurskoðaðri stjórnarskrá sem síðan á að leggja fyrir Alþingi.

Það eru nýmæli. Það er hið nýja. Hingað til hafa menn alla daga leitast við að ná sem víðtækastri pólitískri sátt við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Að vísu hefur komið fyrir að menn hafi brugðið fæti fyrir góðan vilja í þessum efnum eins og þegar Samfylkingin lagðist þversum þegar reynt var að ræða um 26. gr. stjórnarskrárinnar af því að samfylkingarmenn voru brenndir af umræðum um fjölmiðlafrumvarpið, fjölmiðlalöggjöfina og synjunarvald forseta Íslands á þeim tíma. Ég vona að slíkt endurtaki sig ekki, menn hafi lært af þeim mistökum sem þeir gerðu á þeim tíma. En aðalatriðið er þó að verið er að efna til ófriðar (Forseti hringir.) að óþörfu um formið og við ættum frekar að einbeita (Forseti hringir.) okkur að inntakinu og reyna að ná sáttum um það.