139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Flutningsmenn eru hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Ástæða þess að tillagan er flutt er sú að Hæstiréttur felldi úrskurð um að kosningar væru ógildar. Í mínum huga er Hæstiréttur hæsti réttur, hann er sá sem úrskurðar endanlega. Mér er það innprentað að bera mikla virðingu fyrir dómum yfirleitt og alveg sérstaklega fyrir dómum Hæstaréttar sem eru endanlegir og öllum ber að hlíta til að binda enda á deilur og annað slíkt sem leiða mál inn í þann dóm. (MÁ: Þetta var ekki dómur.) Ég hef áréttað að þetta sé úrskurður en Hæstiréttur fellir líka dóma, þess vegna ber ég virðingu fyrir honum, það vill nefnilega svo til — vegna þessa frammíkalls.

Ríkisvaldinu er samkvæmt hugmyndafræði franskra heimspekinga og fleiri skipt í þrennt til að verja borgarann fyrir ofurvaldi ríkisins, í dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald. Því miður höfum við ekki borið gæfu til að hafa þá skiptingu skýra og það er kannski eitthvað sem þyrfti að skoða við breytingu stjórnarskránni. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn á. Ég er mjög ákveðinn í því að það þurfi að breyta stjórnarskránni, ekki vegna hrunsins, ég sé ekkert samhengi þar á milli, heldur vegna þess að stjórnarskráin er ekki nægilega rökrétt. (Gripið fram í: Jú.) Hún segir að forseti lýðveldisins geri þetta og hitt, hann eigi að gera samninga við erlend ríki. Einhver borgari sem les þann texta á íslensku kynni að halda að forseti lýðveldisins hafi heilmikil völd, en svo er ekki. Hann hefur ekki þau völd vegna þess að 13. gr. stjórnarskrárinnar tekur þau til baka með því að segja að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt. Það vantar heilmikið upp á að breyta stjórnarskránni þannig að hún sé rökrétt og skilvirk og fólk skilji hana almennt. Ég hef lesið þrjár lærðar ritgerðir og álit lögfræðinga um 26. gr. og var innilega sammála þeim öllum. Þær gengu þvert hver á aðra.

Úrskurður Hæstaréttar sýndi fram á ótrúlegt klúður við framkvæmd kosninganna og það dapurlega er að það bar enginn ábyrgð. Menn hunsa dóma Hæstaréttar í vaxandi mæli. Hæstiréttur felldi dóm um ákvarðanir hæstv. umhverfisráðherra og það gerðist ekki neitt, það bar enginn ábyrgð. Það sagði enginn af sér, enginn hætti. Eins var þegar Hæstiréttur felldi þennan úrskurð, þá bar heldur enginn ábyrgð. Það var ekki þannig að innanríkisráðherra bæðist lausnar eða eitthvað slíkt, það gerðist ekki neitt. Það er það sem varað er við í kjölfar hruns, að mannréttindi kunni að líða fyrir það að framkvæmdaraðilar, ríkisvaldið, vaði fram með alls konar mál vegna þess að það þurfi nauðsynlega að breyta hratt og vel vegna hrunsins. Jafnvel er vaðið yfir einstaklinga í þeim látum. Það er einmitt það sem menn hafa sérstaklega verið beðnir um að skoða þegar þeir lenda í svona hruni, að gæta mannréttinda. Það sem við ræðum hér, um Hæstarétt, hann segir að hér sé eitthvert klúður á ferðinni, hann fellir þann úrskurð og þá eiga menn að hlíta honum.

Til að leysa málið var stofnaður samráðshópur allra þingflokka og var ég tilnefndur í þann hóp til að byrja með meðan ég gat. Ég þurfi síðan að fara til útlanda og missti þá af síðustu tveimur fundunum eða svo þar sem ákvarðanir voru teknar. Haldnir voru fundir daglega nánast, stundum tvisvar á dag, og var unnið mjög hratt vegna þess að mjög mikið lá á að finna einhverja lausn á vandanum.

Rætt var um fjórar leiðir: Í fyrsta lagi að kjósa alveg frá byrjun, að taka allt dæmið upp og fá ný framboð, jafnvel að hafa öðruvísi skiptingu kjördæma, ekki allt landið. Rætt var um að hverfa frá hinni flóknu kosningareglu sem nánast enginn skilur o.s.frv.

Í öðru lagi var rætt um uppkosningu, þ.e. að kosið yrði upp á nýtt með sömu frambjóðendum frá og með einhverjum ákveðnum tíma, það yrði bara bakkað í tíma. Okkur í nefndinni var sagt að þetta væri lagalega lausnin á klúðrinu.

Í þriðja lagi var rætt um skipun 25-menninganna í nefnd eða ráð sem er efni þingsályktunartillögunnar sem þessir þrír hv. þingmenn flytja.

Í fjórða lagi var svo endurtalning, sem mér fannst vera alveg fráleit hugmynd því að Hæstiréttur gagnrýndi ekki talninguna, hann sagði ekki að það ætti telja aftur. Endurtalning mundi ekki breyta neinu, kannski einu eða tveimur atkvæðum.

En fimmta leiðin var ekki rædd, sem var sú að Alþingi skipaði nefnd þingmanna sem eru á löggjafarsamkundunni. Nefndarmenn, segjum níu þingmenn, tækju sér hlé frá vinnu við alls konar lagafrumvörp í nefndum og gerðu ekkert annað en breyta stjórnarskránni. Þeir ynnu þá með þinginu í heild og öðru góðu fólki. Sú tillaga var ekki rædd.

Menn voru ekki mjög sammála um þessar leiðir. Eitt af ágreiningsmálunum var mjög mikill kostnaður við uppkosningu, svo maður tali ekki um ef farið væri í kosningu frá byrjun. Sumir vildu hlýða úrskurði Hæstaréttar og þar á meðal var ég. Svo var það löngunin til að stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð tæki til starfa sem allra fyrst og sú löngun var mjög rík. Í því fólst von sem varð til í búsáhaldabyltingunni þegar fólk var fullt örvæntingar og reiði yfir því sem gerst hafði og menn töldu að eitthvað þyrfti að gera til að breyta, það þyrfti að breyta miklu. Einhverjum datt í hug að breyta þyrfti stjórnarskránni til að laga afleiðingar hrunsins svo slíkt gerðist ekki aftur. (Gripið fram í.) Ég sé reyndar ekkert samhengi þarna á milli, ekki neitt. Það hefur enginn getað fært fyrir því rök að breyting á stjórnarskránni hefði hindrað hrunið. Ég hef hins vegar lagt fram frumvarp um gagnsæ hlutafélög og tel að raðeignarhald t.d. sé ástæðan fyrir því hvað hér myndaðist af lofti í fyrirtækjum sem svo hrundu og urðu að engu. En það er önnur saga.

Margir lifa í þeirri trú að ef við breytum stjórnarskránni verði allt í einu allt gott. (Gripið fram í.) Já, og það er sá draumur sem ýtir á menn, sérstaklega Hreyfinguna, held ég, að vinna að hraðvirkum breytingum og jafnvel að líta fram hjá Hæstarétti og úrskurði hans.

Ég gat þess í nefndinni að ég mundi alls ekki samþykkja fjórðu leiðina, um endurtalningu. Ég sagði að ég ætti mjög erfitt með að samþykkja þriðju leiðina vegna þess að þá væri eins og Hæstiréttur hefði ekki fellt neinn úrskurð, eins og hann hefði ekki gert neitt. Ef það yrði samþykkt mundi ég jafnvel óttast að Hæstiréttur segði af sér. Það er mikil niðurlæging fyrir Hæstarétt. Það sem ég held að hafi ráðið ákvörðun meiri hlutans, þó að ég hafi ekki heyrt af hverju menn völdu þá leið en ekki t.d. uppkosningu, er ótti við leiðir eitt og tvö, ótti við að þátttakan yrði sáralítil í uppkosningu eða að stjórnmálaflokkarnir færu að beita sér (MÁ: Nú?) þar. Það óttast menn líka. (Gripið fram í.) Næstversta leiðin var valin og við ræðum hana nú.

Við þetta minnkar umboð stjórnlagaþings stöðugt. Það var ekki nema 37% þátttaka, flókin kosning, allt of margir frambjóðendur, óskiljanlegar reglur um talningar og nú ræðum við við mikinn andbyr og mótbárur þingsályktunartillögu þar sem forseti Alþingis er settur í það hlutverk að framfylgja því að sniðganga einn þátt ríkisvaldsins, þ.e. Hæstarétt. Hann ræður þetta fólk í vinnu, það er allt í einu komið í vinnu hjá forseta Alþingis. Ég verð að segja eins og er að það er ekki mjög djúphugsað og mér finnast þetta mjög flaustursleg vinnubrögð og ekki til eftirbreytni.