139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Búsáhaldabyltingin fleytti Hreyfingunni inn á Alþingi (MT: Borgarahreyfingunni.) — Borgarahreyfingunni og síðan Hreyfingunni eða hvað þetta heitir nú allt — og ég batt ákveðnar vonir við að eitthvað breyttist við það. En svo er ekki. Nú er lögð aðaláhersla á að breyta stjórnarskránni. Það er eins og einhvers konar Kínalífselexír svo að maður vísi í gamaldags lyf sem átti að lækna allt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað er það í stjórnarskránni sem olli hruninu? Er tenging á milli hrunsins og stjórnarskrárinnar? Verður allt gott ef stjórnarskránni verður breytt og verður þá aldrei hrun aftur? Ég vil líka spyrja hv. þingmann um hrunið og mannréttindi. Nú er sagt að þegar hrun verði þá séu mannréttindi eitt af því sem menn þurfi að passa best og mest.

Nú fellir Hæstiréttur úrskurð, (MT: Ákvörðun.) ákvörðun eða úrskurð sama hvað menn kalla það, (VBj: Skikkjulaus.) — skikkjulaus, alveg sama um það. (Gripið fram í: Nei.) Hæstiréttur fellir endanlega dóma og Hæstiréttur sagði að þessi kosning hefði verið ólýðræðisleg og hann færði rök fyrir því. Nú er það spurningin: Telur hv. þingmaður að þessar kosningar hafi verið lýðræðislegar og er hann þá að mótmæla ákvörðun Hæstaréttar? Og hvaða hlutverk hefur Hæstiréttur í að gæta mannréttinda almennt?

Svo er það spurningin um baráttuna um Ísland. Hv. þingmaður talar eins og allir hv. þingmenn séu í einhverri baráttu um Ísland. Hvernig er ég staddur í þeirri baráttu, bara svo að ég viti það?