139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi að aðalmálið í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar, og þá væntanlega Hreyfingarinnar líka, væri stjórnlagaþing. Er það ekki einmitt töfralausn? Er það ekki einmitt töfralausnin sem átti að leysa allan vanda, skuldavanda heimilanna, fólksins sem var komið í algert öngþveiti í kjölfar hrunsins, var orðið atvinnulaust o.s.frv.? Var þetta ekki töfralausnin sem átti að leysa allt þetta —„Wunderwaffen“ eins og Þjóðverjar kölluðu það, undravopnið sem átti að snúa gangi mála við á síðustu dögum stríðsins? Ég kalla þetta töfralausn vegna þess að ég sé ekkert samhengi á milli hrunsins og stjórnarskrár sem er langtímasáttmáli þjóðar við sjálfa sig og mikil samstaða á að vera um. Það að leysa vandamál sem koma upp í kreppu með breytingum á henni, ég sé ekkert samhengi þar á milli. Ég sé ekki samhengið eða að stjórnarskráin hafi valdið hruninu.

Ég vil aftur spyrja að því hvar ég standi í þessari baráttu um Ísland: Í hvaða liði er ég og hvers lags hermaður er ég?