139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég tek fullt mark á því að hv. þingmanni þyki þetta vera vont mál. Til þess höfum við öll leyfi hér að þykja mál vera vond og góð eftir atvikum og af margvíslegum ástæðum. En það er munur á því annars vegar og hins vegar því að segja að málið brjóti í bága við stjórnarskrána, þ.e. að það sé ólöglegt. Ég fagna því, og beini því til formanns þingflokks sjálfstæðismanna að láta aðra sjálfstæðismenn vita af þessari skoðun sinni, að hún hafi haft uppi þennan úrskurð hér í ræðustólnum: Þetta er löglegt.

Ég vona að hún hafi jafnmikla lagaþekkingu og hún virðist hafa í þessu efni. Það vill til að íslenskufræðingur sá sem hér stendur, og er ekki vel að sér í almennum lögum, hefur kynnt sér nokkuð stjórnarskrárleg málefni nánast af nauðungarástæðum vegna þess að þess þurfti með í stjórnarandstöðu hér við stjórnir sem flokkur hv. þingmanns hafði forustu fyrir hér á árum áður. Ég get þess vegna fullyrt þetta eins og langt og mitt nef nær.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa komið sér upp einni skoðun í málinu, þ.e. að vera á móti því. Þegar kemur síðan að því hvað eigi að gera í því, fyrir utan þá almennu afstöðu Sjálfstæðisflokksins að vera á móti stjórnlagaþingi, er hver höndin upp á móti annarri og hver talar með sínu nefi og flokknum virðist ekki hafa gefist tími eða haft nennu til að ræða það mál.

Hv. þingmaður sem hér talaði áðan vill endurtaka kosninguna með nýjum lögum sem þyrfti þá að setja hérna. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vildi láta stjórnarskrárnefnd Guðrúnar Pétursdóttur hafa öll völd í þessu efni. Sigurður Kári Kristjánsson vildi hafa 25 einmenningskjördæmi. Pétur H. Blöndal vildi hins vegar kjósa níu manna sérstaka stjórnarskrárnefnd á þinginu sem ekkert gerði annað. (Forseti hringir.) Ég spyr því: Hefur Sjálfstæðisflokkurinn einhverja almenna skoðun á þessu, forseti?