139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði nákvæmlega frá verkefninu eins og það var. Það var setið í átta mánuði að ræða stjórnlagaþing. Það sem ég er að tala um er að við setjumst niður og ræðum breytingar á stjórnarskránni, hvernig okkur beri að breyta henni. (VBj: … útúrsnúningur …) Nei, þetta er ekki útúrsnúningur, hæstv. forseti, vegna þess að við erum að tala um verkefnið stjórnarskrárbreyting sem allir flokkar á Alþingi eru sammála um að þurfi að klára.

Það er ósamkomulag um stjórnlagaþingið sem aðferð við það, ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni. En að segja að við séum hér, sjálfstæðismenn, eins og óþekkur krakki — við erum á móti þessari leið og við hljótum að mega tala fyrir okkar skoðun. Óþekki krakkinn, 16 manna minni hluti hér í þinginu, fær ekki sitt fram. Ef þið viljið breyta þessu með stjórnlagaþingi gerið þið það að sjálfsögðu, en ekki reyna að láta líta þannig út að við þurfum endilega að gefa ykkur vottorð upp á það. Það er það sem pirrar fólk hérna. Það pirrar hv. þm. Mörð Árnason og það pirrar hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur óendanlega mikið að við sjálfstæðismenn ætlum að standa í lappirnar, láta ekki teyma okkur út í eitthvert rugl, að sniðganga úrskurð Hæstaréttar og fara einhverja fjallabaksleið að máli sem enginn hefur sannfæringu fyrir vegna þess að þetta er orðið svo útvatnað og útþynnt og er skásta leiðin af mörgum vondum.

Við ætlum ekki að taka þátt í því með meiri hluta Alþingis og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir verður þá bara að taka ábyrgð á þeirri breytingu sjálf, og hennar þingflokkur og hennar meiri hluti, við munum ekki taka þátt í því. Og þá er það þannig að minni hlutinn verður undir en það (Forseti hringir.) er ekki gert með okkar blessun.