139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá dreg ég þá ályktun af orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að það sé ætlan flutningsmanna að sömu fjármunir fari til stjórnlagaráðsins og áttu að fara til stjórnlagaþingsins samkvæmt fjárlögum, ég get ekki túlkað það öðruvísi, og að ekki verði um að ræða neinar sjálfstæðar ákvarðanir forseta Alþingis sem gangi í neina aðra átt. (Gripið fram í.) Ég get ekki skilið hv. þingmann öðruvísi vegna þess að vísað er til þess að með því að samþykkja þingsályktunartillöguna sé alveg vitað hvernig fjármununum verði varið. Fjármununum átti að verja til stjórnlagaþings samkvæmt fjárlögum sem í gildi eru og það er sagt í texta tillögunnar að þeir peningar eigi að fara í stjórnlagaráðið. Er það einhver misskilningur hjá mér? Ég get ekki lesið þetta (Forseti hringir.) á annan veg. En ef hægt er að skýra þetta á annan hátt vona ég að það komi fram síðar (Forseti hringir.) í umræðunni eða í allsherjarnefnd.