139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

skólamál.

[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Orðatiltækið „að endurtaka leik“ er alls ekki haft uppi í einhverri léttúð eins og hv. þingmanni á að vera kunnugt. En hvað varðar könnunina hefur samráðshópur verið starfandi með fulltrúum skólastjóra og grunnskóla, skólameisturum framhaldsskóla og fulltrúum nemenda þannig að við höfum reynt að finna þar bestu lausnina. Það liggur fyrir að skoðanir eru mismunandi en gagnrýni á þetta hverfafyrirkomulag er fyrst og fremst komin úr hópi nemenda og úr einstaka skólum, mundi ég telja.

Tíminn líður mjög hratt í þessari pontu en hvað varðar eftirlitshlutverkið þá höfum við verið í samskiptum við Samband íslenskra sveitarfélaga og óskað eftir upplýsingum frá þeim um hvernig sveitarfélög standa almennt að niðurskurði í grunn- og leikskólum. Að auki hefur Reykjavíkurborg sérstaklega óskað eftir umsögn ráðuneytisins um þær sameiningartillögur sem liggja þar á borðum, hvort þær teljist stangast á við lagaumhverfi að einhverju leyti. Það mál er nú til umsagnar í menntamálaráðuneytinu.