139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

framkvæmdir í vegamálum á Suðvesturhorninu.

523. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Í umræðum við hæstv. innanríkisráðherra fyrr á þessu þingi kom í ljós að suðvesturhornið sem hafði 20% í nýframkvæmdum eftir mikla baráttu fram til 2008 hefur núna hrapað niður í tæp 10%. Þá sagðist hæstv. innanríkisráðherra reyndar ekki vera mjög þjakaður af þessu hlutfalli, en engu að síður veit ég að honum er mjög annt um að efla og bæta samgöngur á þessu svæði eins og annars staðar.

Við stöndum hér frammi fyrir algjöru framkvæmdaleysi. Það er búið að skera framkvæmdir niður í 6 milljarða og hendur ráðherra eru að vissu leyti bundnar af fyrir fram ákveðnum framkvæmdum. Engu að síður horfum við líka fram á það, sem er ánægjulegt, að menn ætla sér í stórar framkvæmdir norðan heiða, það er búið að gera samning við félag um Vaðlaheiðargöng þar sem menn ætla að fara í 10,4 milljarða kr. framkvæmd þar sem Vegagerðin er með meiri hluta í því félagi. Það er gott og blessað, en ein samgönguframkvæmd á samt ekki að útiloka aðra.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

Hvenær hefjast verulegar stórframkvæmdir í vegamálum á suðvesturhorninu? Erum við í sjálfheldu umræðunnar um veggjöld á suðvesturhorninu? Er það þess vegna sem við komumst ekki neitt áfram?

Hvernig hyggst ráðherra samgöngumála, þ.e. hæstv. innanríkisráðherra, auka hlut suðvesturhornsins?

Hann ætti sem þingmaður kragans, Suðvesturkjördæmis, að vita hvað brennur á fólki þar. Það er hægt að tala um mislæg gatnamót eða bara einfaldar lausnir til að koma fólki á milli staða. Það brennur á okkur sem förum Vesturlandsveginn og víðar um kjördæmið að halda áfram tvöfölduninni. Við erum með tvöföldun á þessu ári fram að Þingvallaafleggjara. Hvenær höldum við tvöfölduninni áfram og þá helst frá Mosfellsbæ að göngum, en ekki byrja frá göngunum og að Mosfellsbæ?

Við sem hér búum viljum fá að vita hvenær eitthvað fer að gerast í samgönguframkvæmdum á suðvesturhorninu. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra út í stóra framkvæmd sem hefur lengi verið í umræðunni, til að mynda Sundabraut. Hvar eru þau mál stödd?

Í þriðja lagi vil ég bæta við spurningu sem tengist strætisvagnaferðum og rekstri strætisvagna: Er gert ráð fyrir því í samgönguframkvæmdum og samgönguskipulagi að menn hugsi þá til almenningssamgangna við allt skipulag á suðvesturhorninu?