139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:46]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Um leið og ég tek undir það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir dró fram hér áðan, þ.e. að við eigum alla vega að fara að ræða það að fjármagn fylgi nemenda, vil ég líka þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ítarlegt svar um reiknilíkanið og hvernig það er uppbyggt. Mér fannst hæstv. ráðherra einmitt draga það fram að reiknilíkanið er ekki fullkomið, en það er svo sannarlega fjölbreytilegt og það tekur tillit til margbreytileika skólakerfisins. Það hefur þroskast til langs tíma, m.a. í samvinnu við Alþingi en líka í samvinnu ráðuneytis við til að mynda skólameistara, ég held að þeir fundir standi áfram. Það eru reglubundnir fundir hjá ráðuneytinu þar sem hlustað er á tillögur og hugmyndir skólameistara. Sumar komast til framkvæmda, aðrar ekki.

Vissulega er reiknilíkanið í tengslum við framhaldsskóla ekki fullkomið en það er engu að síður ágætt tæki til að veita framhaldsskólunum aðhald og um leið nýtist það til að ýta undir annars mjög fjölbreytt starf innan framhaldsskólanna.