139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

beiting reiknilíkans við fjárveitingar til framhaldsskóla.

506. mál
[17:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um þetta mál. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson spyr um gólf. Því er til að svara að gólfi hefur auðvitað verið beitt í gegnum tíðina. Það er þá miðað við aðstæður á hverjum stað, það þarf ekki að vera eitt og sama gólfið sem gildir fyrir hvern og einn skóla, það veltur á öðrum breytum eins og námsframboði og öðru slíku og verður að miðast við aðstæður á hverjum stað. Kannski er erfitt að skipuleggja framhaldsskólana út frá einhverju einu altæku gólfi til lengri tíma litið. Þetta er hins vegar úrræði sem hefur verið beitt einmitt þegar það er talið skipta miklu að viðhalda framhaldsskóla jafnvel fjarri höfuðborgarsvæðinu eða öðrum þéttbýliskjörnum — til að viðhalda skóla sem er kannski ekki nægilega burðugur til að standa undir sér algjörlega út frá berstrípuðum forsendum reiknilíkans en þar sem nemendur þurfa að komast að. Þessu ráði er stundum beitt en það getur verið mismunandi milli staða.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi sérstaklega Fasteignir ríkisins. Hugsunin á bak við innri leiguna er að sjálfsögðu sú að stofnanir fái aukin framlög til að mæta kostnaði við leigugreiðslur. Það hafa hins vegar staðið yfir samskipti milli ráðuneytisins og Fasteigna ríkisins um hvernig eðlilegast sé að haga þessum leigugreiðslum, innri leigugreiðslum, til Fasteigna ríkisins. Skólar sem greiða leigu fyrir utan þetta kerfi hafa líka spilað inn í þessa breytu, þ.e. skólar sem leigja húsnæði annars staðar, þannig að aðstæður hafa verið talsvert mismunandi á hverjum stað. En ég get fullvissað hv. þingmann um að við höfum reynt að gæta jafnræðis í því að skólarnir geti staðið undir húsnæðiskostnaði sínum. Ætlunin á bak við kerfið er sú að þeir fái framlög til að mæta þessum leigukostnaði. Það hefur hins vegar verið þannig að þeir sem hafa greitt hærri leigu hafa þá átt að fá (Forseti hringir.) hærri framlög á móti. En þetta er hins vegar líka í ferli sem ég nefndi, þ.e. þessi samskipti framhaldsskólanna og Fasteigna ríkisins.