139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

kennaramenntun.

519. mál
[17:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, hér er mjög mikilvægt efni til umræðu. Ég held að við getum verið sammála um það, bæði ég og hv. fyrirspyrjandi, ásamt eiginlega flestum þeim sem tjá sig um þessi mál í alþjóðlegu samstarfi, hvort sem það er á norrænum vettvangi, evrópskum eða víðar, að mikilvægi góðra kennara er óumdeilt fyrir gott skólastarf og þar skiptir menntun kennara mjög miklu máli.

Formlegur undirbúningur þeirrar nýskipunar sem hv. þingmaður nefndi hér, vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, hófst á árinu 2005. Eftir að lögin voru samþykkt árið 2008 hefur verið gengið frá eftirfarandi útfærslum í Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri, sem eru þá í samræmi við löggjöfina, og mig langar að taka þær hvora í sínu lagi.

Megináherslurnar í fimm ára kennaranámi við kennaradeild Háskólans á Akureyri eru þær að í ljósi þess að lögin geri sömu menntunarkröfur til leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara, þ.e. meistarapróf eða sambærilegt nám, og að lögin byggist á sveigjanleika varðandi kennslu á ólíkum skólastigum, er boðið upp á kennaranám á öllum skólastigunum þremur við Háskólann á Akureyri. Inntak kennslu- og uppeldisfræði er hið sama á öllum þremur skólastigunum en það er hins vegar lagað að hverju skólastigi fyrir sig eftir því sem við á. Nemendur geta valið um þrjú stig, yngsta stig, miðstig og elsta stig, eftir því hvar þeir vilja hasla sér völl að námi loknu, en gert er ráð fyrir talsverðri skörun á milli stiganna. Í Háskólanum á Akureyri var til að mynda ekki talin sérstök þörf á því að aðgreina nemendur með tilliti til þess hvort viðkomandi hyggst kenna yngstu börnunum, sem eru þá hálfs árs til þriggja ára, eða eldri barnahópi leikskólans og yngstu nemendum grunnskólans, enda eru í stigskjarna námskeið í kennslufræði, aðlögun og fleiri þáttum sem þá varða yngsta hópinn.

Elsta stigið miðar að kennslu í þremur síðustu árgöngum grunnskólans og í byrjunaráfanga í framhaldsskóla. Þar verður lögð áhersla á sérgreinar sem eru kenndar á unglingastigi og í framhaldsskólum. Það má því segja að þar sé skólinn markvisst að vinna með það að tengja saman ólík skólastig og árin í kringum hin hefðbundnu skil skólastiga.

Nýtt heildstætt kennaranám hófst við kennaradeild Háskólans á Akureyri haustið 2009. Jafnframt hófst breytt nám til kennsluréttinda að afloknu BA-prófi. Námið byggist á þessum forsendum og áhersla var lögð á að móta heildstætt nám þannig að nemendur innritist til náms í kennarafræði án tillits til skólastigs. Innritunin fer þá bara fram í tveimur þrepum í samræmi við Bologna-ferlið, til BA-prófs og til MA-prófs, áhersla er lögð á samfellt vettvangsnám og æfingakennslu.

Hvað varðar áherslur við menntavísindasvið Háskóla Íslands var farið í þá vinnu að greina helstu strauma og stefnur í umræðu, í stefnumótun og rannsóknum á menntakerfinu, breyttir starfshættir skóla voru skoðaðir og kröfur til kennara. Á grundvelli þess voru dregnir fram nokkrir lykilþættir i kennaramenntun, sem voru í fyrsta lagi fjölbreyttari verkefni kennara, í öðru lagi samstarf og samvinna, í þriðja lagi skóli án aðgreiningar, sem er lykilhugtak í nýrri skólalöggjöf, og í fjórða lagi fagmennskuhugtakið.

Kennaramenntun á menntavísindasviði er skipulögð á fjórum meginsviðum, þ.e. leikskólakennarafræði, grunnskólakennarafræði, nám og kennsla í framhaldsskóla og nám íþrótta- og sundkennara. Þó að þetta sé nefnt eftir skólastigunum er ákveðinn kjarni skilgreindur á öllum námsleiðum en miklir möguleikar eru á að velja sér margvíslega sérhæfingu. Þannig geta kennarar sem útskrifast frá menntavísindasviði haft ólíka menntun þótt þeir útskrifist frá sömu deild, jafnvel af sömu námsleið, þannig að verið er að reyna að koma til móts við þarfir skólanna fyrir sérfræðiþekkingu á mjög mörgum sviðum og að kennarar hafi menntun til að kenna þvert á lögskipuð skólastig. Það er eitt af grundvallaratriðunum í skipulaginu hjá menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Með lengingu námsins skapast auðvitað möguleiki á fjölbreytileika í vali þeirra sem stunda kennaranámið. Þá opnast leiðir til að koma inn í kennaranám á mismunandi tíma, taka hluta af námi sínu á öðrum sviðum Háskóla Íslands eða í öðrum háskólum.

Reynt hefur verið að finna jafnvægi milli umfangs faggreina og fjölmargra annarra þátta skólastarfs sem kennurum er ætlað að hafa á valdi sínu og má þar nefna samþættingu við uppeldis- og kennslufræði og nám á vettvangi, jafnvægi milli áherslu á faggreinar og áherslu á aðra þætti sem lög, reglugerðir og námskrá tilgreina sem hlutverk skólanna og starfsvettvangur kallar eftir. Þar er til að mynda nefnt sérstaklega mat á skólastarfi, námskrárgerð, kennslu barna með sérþarfir, samstarf við foreldra, fjölmenningarlega kennslu, menntun til sjálfbærni, og þá þætti sem við viljum sjá að séu almennir í öllu skólastarfi óháð stigum.

Þetta er hraðferð yfir það sem skólarnir hafa verið að gera en ég held að hið mikilvæga sé að ákveðið var að halda áfram með þessa löggjöf óháð efnahagsástandinu. Ég held að við séum að sjá mjög spennandi leiðir opnast í kennaranámi á háskólastigi (Forseti hringir.) sem vafalaust eiga eftir að skila árangri til skemmri og lengri tíma litið.