139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fréttir berast núna af háum launagreiðslum til skilanefndarmanna, bankastjóra og forstjóra stærstu fyrirtækja landsins. Laun þessara aðila voru á síðasta ári á bilinu 2–6 millj. kr. á mánuði. Það sem einkennir þessa hátekjuhópa er að hvorki stjórnvöld né markaðurinn setja þeim skorður þar sem um er að ræða eftirlitslausa aðila eða fákeppnisfyrirtæki.

Annars staðar á Norðurlöndunum greiða hátekjuhópar allt að 57% í skatt en á Íslandi leggst 46% skattur á tekjur umfram 680 þús. á mánuði. Þegar skattþrepakerfið var tekið upp á síðasta ári þótti ekki ástæða til að skattleggja sérstaklega tekjur yfir 1 millj. kr. á mánuði, fáir væru á þeim launum. Vel má vera að hópur tekjuhárra sé lítill en laun hans halda áfram að hækka á meðan laun annarra tekjuhópa standa í stað.

Eftir hrun hefur tekist að lækka skattbyrði þeirra tekjulægstu en skattbyrði annarra hópa, þá sérstaklega millitekjuhópsins, hefur verið þyngd verulega. Vandamál lágtekjuhópsins eru hins vegar tekjutengingar bótakerfisins. Tekjutengingar verða til þess að ráðstöfunartekjur tekjulágra skerðast mest allra tekjuhópa þegar tekjurnar hækka.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að laun tekjuhæsta hópsins hafa hækkað og tekjutengingar voru auknar á þessu ári vil ég spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvar, hvort hann telji ekki nauðsynlegt að innleiða fjórða skattþrepið á tekjur yfir 1.300 þús. kr. á mánuði og (Forseti hringir.) hvort hann telji ekki nauðsynlegt að skoða áhrif aukinna tekjutenginga á tekjulægsta hópinn.