139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

staða atvinnumála.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er afar sérkennilegur málflutningur vegna þess að hér er ýmist talað um mjög háa skatta á atvinnulíf og einstaklinga eða að ríkisstjórnin sé með hindranir í veginum fyrir uppbyggingu á atvinnulífinu. Hvort tveggja er (Gripið fram í.) rangt. Ef horft er á skattana bið ég bara hv. stjórnarandstæðinga að nefna í hvaða landi skattarnir eru miklu lægri en hér. Ég held að þeir séu ekki miklu hærri en gengur og gerist, þeir eru frekar nálægt meðaltali. Eins og hér var bent á eru þeir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lægri en þeir voru í tíð fyrri (Gripið fram í.) ríkisstjórnar. Skattar á fólk með lágar og meðaltekjur eru lægri en voru í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það er nú sannleikur málsins.

Varðandi atvinnulífið hygg ég að við gætum alveg skoðað breytingar á sköttum á fyrirtæki í þá veru t.d. að lækka skatta með tryggingagjaldinu en leggja í staðinn, til þess að ríkið verði ekki fyrir tekjutapi, skatta á bankastarfsemina, ofurlaunin og hagnaðinn sem við sjáum þessa dagana. Lækkað tryggingagjald mun koma sér vel fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Það held ég að við ættum að horfa á núna á næstunni.

Það er ekki rétt að alltaf sé verið að setja hindranir fyrir atvinnuuppbygginguna. Hvað með fjárfestingarsamninga sem sérstök lög og ívilnanir voru samþykkt fyrir varðandi nýfjárfestingar, varðandi þá sem eru að efla og byggja upp í nýfjárfestingum í atvinnurekstri? (Gripið fram í.) Hvað með ferðaþjónustuna sem við erum búin að vera að gera átak í og er verið að byggja upp enn frekar? Það er verið að vinna í áætlunum um vetrarþjónustu í ferðaþjónustunni sem gæti skilað hingað 50 þúsund ferðamönnum og 1 þúsund manns í vinnu. Hvað með gagnaverin þar sem við gerðum breytingar á skattumhverfi til að tryggja gagnaveraiðnaðinum jafna samkeppnisstöðu á við evrópsk gagnaver? Eru þetta hindranir? Er hægt að kalla þetta hindranir, (Forseti hringir.) virðulegi forseti? (Forseti hringir.)

Ég hef nefnt hér ýmis verkefni sem eru í gangi sem munu á næstunni fjölga hér (Forseti hringir.) verulega atvinnutækifærum. Bölsýnin hjá stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) er allt að drepa. Það er alveg full ástæða til þess að vera aðeins bjartsýnn (Forseti hringir.) þótt dregið hafi fyrir sólu varðandi hagvöxtinn. Við erum á uppleið (Forseti hringir.) á mörgum sviðum. Ég held að stjórnarandstaðan ætti að líta líka jákvætt á það. Það vantar (Forseti hringir.) mikið þegar vantar bjartsýnina í stjórnarandstöðuna. Hún hefur fulla ástæðu til að vera nokkuð bjartsýn. (Gripið fram í.)