139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breytingar á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Ég kom upp í andsvari á undan utandagskrárumræðunni áðan og ræddi þetta við formann nefndarinnar. Það komu fram ákveðnar dylgjur í máli hans sem ég ætla að byrja á að svara, eins og t.d. að ég hafi misskilið úrslit stjórnlagaþingskosninganna af því ég raðaði frambjóðendum í stafrófsröð. Mér datt ekki annað í hug þegar Samfylkingin hafði náð markmiði sínu að gera landið að einu kjördæmi og taka upp persónukjör í fyrsta sinn og ná því í gegn að í fyrsta sinn væri talið á einum stað úr kosningum sem haldnar eru á landsvísu, yrðu úrslitin að sjálfsögðu kynnt á þann hátt að sá sem fékk flest atkvæði í fyrsta sætið samkvæmt STV-aðferðinni yrði lesinn upp fyrstur og svo koll af kolli. En svo var ekki gert, líklega vegna þess að landskjörstjórn var orðið ljóst þá þegar hversu mikil vandræði úrslitin höfðu í för með sér, því að eins og allir muna voru það ekki nema 11 einstaklingar sem náðu þeim sætishlut sem fjallað var um í lögunum. Þetta var með þessum hætti.

Mig langar til að kynna hér líka til sögunnar tvær breytingartillögur við þetta frumvarp vegna þess að ég var búin að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu í tilefni af því að ég lagði fram þingsályktunartillögu um að þjóðin fengi að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti aðlögunar- og viðræðuferli Íslands við Evrópusambandið áfram um leið og kosið væri til stjórnlagaþings. Þá kom í ljós að tilskilinn frestur frá samþykkt málsins og fram að atkvæðagreiðslu var ekki nægur þannig að ég er hér einnig með breytingartillögu við 4. gr. um þau tímamörk.

Úr því að formaður utanríkismálanefndar situr í salnum langar mig til að benda honum og þingmönnum á að ég hef uppfært þá breytingartillögu sem sneri að því að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunarferlið yrði haldin samhliða stjórnlagaþingskosningunni. Sem betur fer varð það ekki raunin vegna þess að hefðu þessar kosningar verið haldnar samhliða hefði þjóðaratkvæðagreiðslan um aðlögunarferlið að sjálfsögðu verið dæmd ógild líka. Svo mikla ágalla fann Hæstiréttur á kosningunni. Það var því lán í óláni.

Nú hef ég lagt fram breytingartillögu þar sem kveðið er á um að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli fara fram eigi síðar en 1. september 2011. Hef ég mótað spurningu fyrir þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á að halda áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins?“

Þá merkir kjósandi við já eða nei eins og gert er ráð fyrir í lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef lagt ríka áherslu á að þær breytingar sem nú er verið að gera við lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur séu vandaðar, því að eins og ég kom inn á áðan er kosningarrétturinn einn dýrmætasti rétturinn sem einstaklingar geta haft í lýðræðisríki, að um kosningarnar gildi algjör friður og taka megi úrslitin úr kosningunum á þann hátt sem um segir þegar talið er og hafi einhverjir athugasemdir við kosninguna sé hægt að áfrýja og kæra til æðsta dómstóls landsins.

Áður en ég fer yfir það nefndarálit sem ég hef lagt fram langar mig til að fara aðeins yfir kosningakærur í þeim lögum sem gilda um kosningar. Þær kærur eru mjög breytilegar eftir lögum og eru ýmsar ástæður fyrir því.

Um kæruleiðir í lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, segir að séu gallar á framboði eða kosningu skuli afhenda hlutaðeigandi sýslumanni kæru innan sjö daga frá því að úrslitin voru kynnt og sýslumaður skuli þá skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið o.s.frv. Þeim úrskurði sé að lokum hægt að skjóta til innanríkisráðuneytisins. Í kosningum til sveitarstjórna er þessu haldið á þessu plani. Það skal upplýst á nýjan leik að það hefur komið fyrir hér á landi að kosningar til sveitarstjórna hafa verið kærðar og felldur úrskurður í þá átt að sú kosning skuli fara fram aftur. Að mínu mati gengur þetta hæglega upp vegna þess að sveitarstjórnir eru á afmörkuðu svæði í landinu þannig að úrslit kosninga í einu sveitarfélagi hafa ekki áhrif á kosningar á landsvísu og því er þetta með þessum hætti þarna.

Ef fram kemur kæra vegna kosninga til Alþingis kveður Alþingi sjálft upp úr um hvort kosningarnar séu ógildar eða ekki. Þingmenn sjálfir sitja í þeirri nefnd og ég man eftir því að þegar ég var nýkjörin á þing sat ég sem fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni. Þá hafði komið fram ein kæra og landskjörstjórn farið yfir hana og það var úrskurðað á þann hátt að ekki var litið svo á að um ógilda kosningu hefði verið að ræða.

Svo eru kosningar sem byggja á lögum nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands. Þar er ákvæði sem ég vil að byggt sé á í þeim kæruleiðum sem lagðar eru til í þjóðaratkvæðagreiðslufrumvarpinu. Það er á þá leið að þegar kærur koma fram um ólögmæti forsetakjörs aðrar en refsikærur skal Hæstiréttur skera úr um gildi kosninganna. Þetta er eðlilegasta leiðin því að í þjóðaratkvæðagreiðslum er oft kosið um gríðarlega stór og efnismikil mál og síðast en ekki síst afar umdeild hjá þjóðinni. Þau eru send í þjóðaratkvæðagreiðslu af því að þjóðin krefst þess að fá þau til meðhöndlunar sjálf eins og við þekkjum mætavel úr Icesave-málinu. Icesave 2 hefur nú þegar farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og sem betur fer reyndi ekki á kæruleiðir í því. Icesave 3 fer í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl. Því má ekkert út af bregða í þessari lagasetningu, hér er um svo mikilvægt mál að ræða að það verður að vanda lagasetninguna.

Málið hefur aðeins breyst frá því að síðasti fundur í allsherjarnefnd var haldinn og þar til nú og ég kem til með að fara yfir þær breytingar á eftir.

Eins og ég kom inn á áðan um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna var sett rammalöggjöf, lög nr. 91/2010, í fyrrasumar sem nú hefur komið í ljós að er gölluð og er þetta frumvarp til komið vegna þess og til að plástra þá löggjöf.

Í lögum um stjórnlagaþing, sem Hæstiréttur hefur nú dæmt ógilda kosningu um, var ákvæðið á þá leið, sem er nú orðin fordæmagefandi í almennum kosningum að mínu mati þar sem um stór mál er að ræða, að landskjörstjórn úrskurðar um ákveðin ágreiningsefni og sé aðili ekki sáttur við það getur hann kært til Hæstaréttar. Svona var ákvæðið í stjórnlagaþingsfrumvarpinu og er ég afar sátt við það og tel að þetta sé sú leið sem eigi að fara í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Í stað þess er vísað hér í lög, einnota lög ef svo má að orði komast, það eru lögin um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave 2 sem eru nú þegar orðin úrelt því að þetta var lagasetning um þjóðaratkvæðagreiðslu um eitt tiltekið mál. Það var mikil heppni að þær kosningar voru ekki kærðar. Framkvæmdin var það góð á þeim tíma því að þar var málinu að sjálfsögðu haldið úti í kjördæmunum. Það var tekið til baka í stjórnlagaþingskosningunni því að þá ætlaði Samfylkingin að uppfylla kosningaloforð sitt, eins og ég kom inn á áðan, að hafa landið eitt kjördæmi, taka upp persónukjör, telja á einum stað og hafa landskjörstjórn sem eitt allsherjarbatterí í því vandasama verki sem kosningar eru. Raunverulega var yfirkjörstjórnum í hverju kjördæmi fyrir sig kippt úr sambandi í þeim lögum

Með seiglu og þrautseigju er þetta komið inn í frumvarpið á ný. Það var ekki gert ráð fyrir því í upphafi og þess vegna er ég ekki flutningsmaður frumvarpsins. Svo rofaði til eftir gestakomur í allsherjarnefnd og það varð ofan á. Nú eru yfirkjörstjórnir komnar inn á nýjan leik, allur sá mannauður sem býr úti á landi og hefur tekið þátt í að skipuleggja kosningar og gera þær kleifar, og talningarfólkið er komið aftur inn. Það hefur sýnt sig í undanförnum kosningum að mannauðurinn og reynslan þar er auðvitað það sem við eigum að byggja á. Það er það sem við eigum að byggja á í stað þess að ferðast fram eftir kvöldi og nóttu kosningadags um allt land með kjörkassa í mismunandi færð eftir árstíð og við mismunandi aðstæður. Eins og þessu var stillt upp í stjórnlagaþingskosningunni þurftu litlu kjördeildirnar fyrst að koma atkvæðakössunum til yfirkjörstjórna og svo þurftu yfirkjörstjórnirnar að keyra eða fljúga eftir atvikum með þá til Reykjavíkur þar sem talið var í Ráðhúsinu.

Um talninguna fjalla ég aðeins í minnihlutaáliti mínu því að allsherjarnefnd barst skýrsla frá fulltrúa í landskjörstjórn í Reykjavíkurkjördæmi suður. Það er alltaf verið að gera lítið úr því að Hæstiréttur hafi úrskurðað, að þetta hafi ekki verið til þess fallið eða annmarkar kosninganna, að það hafi ekki verið við hæfi að Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda. Þessu mótmæli ég harðlega því að Hæstiréttur hefur talað og hinn venjulegi Íslendingur deilir ekki við dómarann sama hvaða rök eru notuð. Það er notað nú til að réttlæta þá stjórnarskrársniðgöngu sem á sér stað í málinu sem við ræðum á eftir.

Varðandi nefndarálitið sem ég stend ein að og skrifa undir langar mig fyrst til að segja að sú ákvörðun var tekin á síðasta ári í þjóðaratkvæðagreiðslulögunum, rammalöggjöfinni, það kom fram tillaga um það, að með kærur vegna þjóðaratkvæðagreiðslna ætti að fara eins og í kosningum til Alþingis. Þá benti ég á þá staðreynd að það væru gríðarstór og umdeild mál sem færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tók ESB-málið sem dæmi þegar það verður lagt fyrir þjóðina, hvort sem það verður tillagan mín sem ég hef nú framlengt í tíma vegna þess að formaður utanríkismálanefndar situr á henni í utanríkismálanefnd og virðist ekki vilja taka hana út, en ég gefst ekki upp og hef lagt fram breytingartillögu til þess að fram megi fara þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram aðlögunarferlinu eða ekki, skapa þjóðarsátt um það með þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda eigi áfram með ferlið eða ekki. Fyrr næst ekki þjóðarsátt.

Máli mínu til stuðnings þegar rammalöggjöfin var samþykkt byggði ég á þeim grunni að það væri ótækt að framkvæmdarvaldið færi af stað með mjög umdeilt mál, eins og t.d. að greiða atkvæði um ESB-samning sem hugsanlega væri kominn til landsins, og það væri framkvæmdarvaldið sjálft sem efndi til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og ef kosningarnar yrðu ekki hliðhollar því ætti Alþingi að úrskurða um gildi kosninganna. Ég benti jafnframt á að ef svo yrði gæti meiri hlutinn í krafti afls síns á Alþingi bæði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, fundið á henni ágalla og ógilt hana jafnframt. Það eru rökin fyrir því og ástæðan að Hæstiréttur kom inn í þetta ferli og að litið var til kæruleiða í lögum um framboð og kjör forseta Íslands.

Svona gerðist þetta í sögunni og er nauðsynlegt að rifja það upp hér vegna þess að nú er verið að víkja af leið og eftir því sem formaður allsherjarnefndar kynnti hér áðan á landskjörstjórn að vera æðsta valdið í kærumálum. Ég tel það algjörlega ófært. Landskjörstjórn hefur það verkefni að taka á móti kjörgögnum og birta á úrslitin í Reykjavík. Landskjörstjórnir eiga að koma gögnunum, seðlum, vafaatkvæðum og öðru sem ágreiningur er um til yfirkjörstjórnar. En nú á landskjörstjórn sjálf að vega það og meta hvort ákveðnir kjörseðlar eða jafnvel talsvert magn af þeim séu gildir eða ekki og hafa jafnframt úrskurðarvald. Þetta er ekki hægt. Nú er strax kominn í ljós galli vegna þess að þegar fundi allsherjarnefndar lauk í gær taldi ég að verið væri að leggja til dómstólaleið, að þetta ætti fyrst að fara fyrir landskjörstjórn, síðan fyrir héraðsdóm og að lokum fyrir Hæstarétt. Þannig skildi ég við allsherjarnefnd í gær. En það er kannski ástæðan fyrir því að ekki hefur verið boðað til fundar í nefndinni að ég var ein á móti þessari leið, mér fannst hún ófær vegna þess að í umdeildum málum, eins og þeim sem fara í þjóðaratkvæði, verður að leysa hratt og vel úr ágreiningsmálum. Mér fannst algjörlega ófært að flækja þyrfti málið á þann hátt að kæra fyrst til héraðsdóms og síðan til Hæstaréttar til að fá endanleg úrslit úr kosningum. En það er fallið frá þessu. Ég fjalla ítarlega um þessa leið í nefndarálitinu af því að mér fannst þetta vera á þennan hátt þegar ég kvaddi nefndina í gær. Ég er með breytingartillögu við þetta ákvæði sem ég kem til með að lesa hér upp í lokin.

Það sjá allir að þessi leið er ófær og því fer ég fram á það við forseta þingsins að málið komi til allsherjarnefndar á milli 2. og 3. umr. til frekari umfjöllunar þannig að við getum kallað til okkar færustu sérfræðinga sem hafa farið fremstir í flokki þeirra sem tala fyrir bættri kosningalöggjöf.

Ég ætla þá að fara yfir nefndarálit minni hluta nefndarinnar. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Minni hluti allsherjarnefndar er að meginefni til samþykkur þeim breytingum sem lagðar eru til í áliti meiri hlutans á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Sérstaklega er því fagnað að með frumvarpinu er hlutur kjörstjórna og yfirkjörstjórna aukinn á ný. Því er fallið frá þeirri stefnu sem mörkuð var af meiri hluta allsherjarnefndar við meðferð og umræðu þess frumvarps sem varð að lögum nr. 91/2010, að líta á landið sem eitt kjördæmi í slíkum kosningum og telja atkvæði á einum stað. Yfirkjörstjórnir endurheimta vald sitt og sjá um yfirumsjón kosninga og talningar í hverju kjördæmi fyrir sig eins og verið hefur. Fyrir þessu barðist minni hluti allsherjarnefndar þegar lögin voru sett. Ekki var hlustað á rök hans en það hefur nú verið gert.

Eftir ógildingu Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings var ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna eru gölluð, eins og lögin um stjórnlagaþing. Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa illa getað hlustað á sérfræðinga í kosningamálum og ekki tekið góðum ráðum. Því stóð þjóðin frammi fyrir því í fyrsta sinn í lýðveldissögunni að Hæstiréttur ógilti almennar kosningar. Í kjördæmunum er mikið af hæfu fólki sem er alvant að fást við kosningar, talningu og uppgjör kosninga og auðvitað á að virkja þann mannauð í öllum kosningum sem fram fara.

Minni hluti allsherjarnefndar telur að ganga eigi skrefið alla leið þannig að yfirkjörstjórnir tilkynni úrslit í sínum kjördæmum í stað þess að þau verði tilkynnt frá Reykjavík. Má reikna með að það auki spennu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslunni, hvernig atkvæði falla eftir landshlutum, því gert er ráð fyrir því að einungis mjög umdeild mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Minni hlutinn tekur ekki undir áhuga meiri hluta allsherjarnefndar á því að unnið skuli að því að taka upp rafræna talningu í framtíðinni, víða erlendis hafa slíkar talningar ekki gefist vel og auðvelt er að brjótast inn í slík kerfi til að skekkja niðurstöður. Fámennið hér á landi er til þess fallið að kosningar og talning fari fram með þeim hætti sem verið hefur.

Ágreiningsefnið sem var uppi í allsherjarnefnd snýr að kærumálum ef eitthvað fer úrskeiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í kosningu til stjórnlagaþings voru ágallar á framkvæmd kosningarinnar svo miklir að þrír einstaklingar sáu sig knúna til að kæra hana. Svo vildi til að kærendur komu úr þremur kjördæmum. Það var því mikið lán að ákvæði um kærur vegna kosninganna voru sóttar til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands. Hefði kæruákvæðið verið samhljóða kæruákvæði 12. gr. laga nr. 4/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., hefðu kærurnar þurft að fara fyrst fyrir héraðsdóm.“ — Hérna ætla ég aðeins að koma inn og sýna líka fram á gildi vandaðrar lagasetningar. Þetta sem ég las upp er stytting á mikilli upptalningu, með öðrum orðum Icesave-lögum 2. Ég varaði einmitt við því þegar Icesave 3 kom fyrir þingið og það var slík langloka í nafninu á frumvarpinu að fólk hefði ekkert lært af því að smíða nöfn á lagafrumvörp, því að ef það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu værum við með sömu löngu rununa. Það hefur nú ræst. Nú hvet ég þá sem huga að frumvarpasmíð að taka sig á í þessum efnum. — „Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögunum segir um 12. gr.: „Í greininni er fjallað um hugsanlegar kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar og meðferð þeirra og mælt fyrir um að þær skuli sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 9. gr. Er hér um sambærilegt fyrirkomulag að ræða og á við í forsetakosningum, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, að því frátöldu að landskjörstjórn hefur hér með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum. Dómstólar eiga svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reynir.““ — Á þessu ákvæði átti að byggja frumvarpið sem er hér til umræðu þegar ég yfirgaf fund allsherjarnefndar í gær en þá var ekki hægt að svara mér því, ef fara ætti dómstólaleiðina, hvort héraðsdómur og Hæstiréttur gætu farið fram á flýtimeðferð í lögum sem þessum vegna þess að það hefur aldrei reynt á slík mál. Þessu var ekki hægt að svara og nú er það komið þannig inn í þingið í dag að landskjörstjórn á ein að sjá um að úrskurða og kærur eiga að afgreiðast þar. — „Minni hlutinn telur að ekki væri búið að leysa úr þeim réttarágreiningi sem reis eftir kosninguna hefði málið farið hina hefðbundnu dómstólaleið og er því brýnt að kæruleið til Hæstaréttar sé greið.“ — Hér ætla ég aðeins að skjótast inn í nefndarálitið. Hefðu kærurnar þrjár úr stjórnlagaþingskosningunum þurft að fara fyrst fyrir héraðsdóm og svo fyrir Hæstarétt væri jafnvel ekki enn þá búið að úrskurða um gildi kosninganna til stjórnlagaþings. Úr því að til er fordæmi fyrir því að kærur eigi að fara beint til Hæstaréttar, samanber lög um framboð og kjör forseta Íslands, eins og beitt var í stjórnlagaþingskosningunum eigum við að sjálfsögðu að gera það að venju og hafa það með þeim hætti þegar verið er að skapa nýja kosningalöggjöf sem nú er verið að gera um þjóðaratkvæðagreiðslur. — „Sex dómarar Hæstaréttar úrskurðuðu kosninguna ógilda. Niðurstöður Hæstaréttar ber að skilja sem svo að annmarkar á kosningunni hafi verið til þess fallnir að hafa áhrif á úrslitin. Fram hjá því verður ekki litið. Í 15. gr. laga nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, er kveðið á um kærur til Hæstaréttar og þeim eindregna vilja lýst að niðurstaða réttarins leiði til endanlegrar niðurstöðu í kærumálum er kynnu að rísa við framkvæmd kosninganna.

Að þessu sögðu er það álit minni hlutans að vísa eigi til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, varðandi kæruleiðir í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þau mál sem lögð eru fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum nr. 91/2010 hafa verið og verða umdeild. Það er því afar brýnt ef einhver ágreiningur kemur upp varðandi kosningarnar að kæruleiðir séu stuttar og stuðst verði til framtíðar við þá reglu sem sköpuð var í kosningunni til stjórnlagaþings, þ.e. að Hæstiréttur fái kæru til úrskurðar innan ákveðinna tímamarka eftir kosningu, rísi ágreiningur um slík atriði.“

Minni hlutinn leggur því til þá breytingu að 5. gr. laganna sem hér er boðuð falli brott. En 5. gr. laganna er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„13. gr. laganna orðast svo: Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 1. mgr. 10. gr. Gallar á kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

Ég legg til að þessi grein falli brott og auk þess sé ég mig knúna til að mótmæla harðlega 2. mgr. greinarinnar sem fjallar um það að gallar á kosningunni leiði ekki til ógildingar nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Þarna er verið að setja mjög svo matskennda málsgrein inn í kærugreinina sem getur haft þær afleiðingar að ekki verði hægt að úrskurða um kærur og ógildi kosninga. Nóg er nú havaríið og vesenið búið að vera um úrskurð Hæstaréttar í stjórnlagaþingskosningunni og það túlkað út og suður og stjórnarskrársniðgöngu beitt í þinginu vegna þess að menn telja að þetta hafi ekki verið svo afgerandi gallar á kosningunni. Ég vísa því alfarið á bug. Löggjafinn má ekki og getur ekki sett svo opna grein inn í eins viðkvæm lög og lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur eru þar sem það getur skipt sköpum til að friður haldist í þjóðfélaginu að úrslitin séu rétt kynnt og farið verði eftir úrskurði þeirra aðila sem úrskurða eiga um gildi kosninganna.

Ég ætla síðan að kynna til sögunnar þá breytingartillögu sem ég lagði fram við lögin um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir jól. Það er breytingartillaga við 4. gr. laganna sem fjallar um það að sá tímafrestur frá samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu megi vera skemmri en þrír mánuðir ef boðaðar eru kosningar á þeim tíma.

Með þessum orðum er ég jafnframt að svara hv. þm. Róberti Marshall, formanni allsherjarnefndar, í þá veru að það voru ekki gerð mistök í þeirri tillögu sem ég lagði fram um það að leggja fyrir þjóðina hvort halda ætti áfram aðlögunarferlinu við Evrópusambandið, því að þingmaðurinn veit jafn vel og sú sem hér stendur að lögð var fram breytingartillaga strax daginn eftir um breytingar á lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslu til að koma því ákvæði í gegn að hægt hefði verið að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina samhliða stjórnlagaþingskosningunum. En gæfan var hliðholl mér í það sinn því að það var mikil tregða og eins og oft gerist náttúrlega hjá meiri hlutanum fékkst tillagan ekki á dagskrá þingsins þó að ég kallaði oft eftir því og í dag segi ég sem betur fer því að þá hefði sú atkvæðagreiðsla orðið jafnógild og kosningin til stjórnlagaþings. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla bíður betri tíma og hef ég nú lagt fram breytingartillögu í þá átt að hún fari fram í síðasta lagi 1. september. Það er aldrei að vita nema hún fari jafnvel inn í kosningar til Alþingis, ef guð lofar að kosningar verði fljótlega til að valdahlutfallið á þinginu fari að rétta sig af á nýjan leik. Alla vega er sú tillaga fullbúin í utanríkismálanefnd og á bara eftir að koma til síðari umr. í þinginu og atkvæðagreiðslu og þá sjáum við til hvort lýðræðissinnuðu vinstri flokkarnir séu ekki tilbúnir til að standa með mér og flutningsmönnum tillögunnar um að leyfa þjóðinni að tala í sem flestum málum.