139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir svarið. Það situr enn þá í mér, ef þetta er svona lítilfjörlegt og skiptir í sjálfu sér svona litlu máli, hví er það þá ekki tekið inn? Hverju öðru þarf að breyta?

Ég vil benda á, frú forseti, að við lentum í því í millitíðinni, frá því í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, að hér var ógilt kosning til stjórnlagaþings vegna þess að Hæstiréttur kvað upp úr með það þegar kjósendur kvörtuðu. Það hlýtur að vekja einhverjum ugg að einmitt sú ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningu um stjórnlagaþingið geri það að verkum að meiri hluti allsherjarnefndar er ekki tilbúinn til þess að setja orðið Hæstiréttur inn hér.