139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[18:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim málflutningi sem hv. þm. Róbert Marshall hefur hér uppi um hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, hann verður að eiga það við sig.

Í nefndaráliti á þskj. 1030 undir liðnum Kæruleiðir segir, með leyfi forseta:

„Í skýringum við ákvæðið [sem verið er að fjalla um] kemur fram að kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar og meðferð þeirra verði sendar landskjörstjórn til úrlausnar eins og þar greinir. Kemur fram að þar sé um að ræða sambærilegt fyrirkomulag og í forsetakosningum, að því frátöldu að landskjörstjórn hefði með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum.“

Síðan kemur að landskjörstjórn hafi með höndum það vald sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum og svo segir:

„Dómstólar eigi svo úrskurðarvald um gildi ákvörðunar landskjörstjórnar í samræmi við almennar reglur ef á reyndi.“

Ef um væri að ræða forsetakosningar væri það endanlegur úrskurður á sama hátt og það var um almennar kosningar og Hæstiréttur kvað upp úr um. En hér, varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu, á það að vera landskjörstjórn, síðan hugsanlega héraðsdómur og síðan hugsanlega Hæstiréttur.

Ég hlýt að velta fyrir mér, frú forseti, miðað við þessi lög og miðað við þær framkvæmdir sem eru við kosningar: Hvað ef héraðsdómur telur að hann hafi ekki lögsögu í málinu? Þá nær úrskurður landskjörstjórnar aldrei til Hæstaréttar. Það er einfaldlega þannig. Ef dómstólar kveða upp úr með að þeir hafi ekki lögsögu samkvæmt þessum lögum (VigH: Rétt.) til að fara í dugar ekki það sem stendur að héraðsdómur taki við af landskjörstjórn og síðan Hæstiréttur, frú forseti, því miður.