139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:54]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir fyrirspurn hans og ábendingar varðandi framtíðina. Það er mjög mikilvægt að við sjáum til lands með hver sé heppilegasta skipanin á fjármögnun þessa verkefnis. Þetta eru kannski ekki risastórar upphæðir en allt telur í þeirri stöðu sem við erum í um þessar mundir og á komandi missirum.

Ég viðraði í stuttu máli mínu sjónarhorn umhverfisráðuneytisins sem er staðfest í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um að horft sé til þess að undirbúa frumvarp um gjaldtöku á atvinnurekstur og að það verði væntanlega tilbúið árið 2013. Ég tek undir það með hv. þingmanni að umhverfisnefnd eigi að gefa sér tíma til að skoða þessi mál og fara vel yfir aðra kosti, þar á meðal þann sem hv. þingmaður velti upp um hvort eigi að horfa til sveitarfélaganna í þessu sambandi og lýsi ég mig reiðubúinn til að skoða það með opnum huga.