139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxtur.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að aðilum vinnumarkaðarins hefur tekist að verða nokkurn veginn samstiga í gegnum þá erfiðu tíma sem við búum nú við í efnahagsmálum. Þeir sýndu mjög ríkan vilja til þess árið 2009 þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður að leggja sitt af mörkum til að við gætum vaxið að nýju á raunhæfum forsendum út úr því ástandi sem hér skapaðist við hrun fjármálakerfisins. Því miður stóð ríkisstjórnin ekki við sinn hlut og upp úr slitnaði að lokum.

Nú eru kjarasamningar lausir að nýju og aðilar vinnumarkaðarins knýja dyra í Stjórnarráðinu með aðgerðir til að leggja grunn að raunhæfum kauphækkunum á næstu árum og horft er til þriggja ára í því samhengi. Við þessar aðstæður blasir við sú staðreynd að ríkisstjórninni hefur algerlega mistekist að gera það sem að henni snýr til að laða fram fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Þannig er fjárfestingarstigið í dag um það bil 150 milljörðum lægra á yfirstandandi ári en að var stefnt með stöðugleikasáttmálanum árið 2009 og nú koma aðilar vinnumarkaðarins að nýju í Stjórnarráðið og spyrja spurninga um sömu hluti og gert var árið 2009.

Mig langar til að bera það undir hæstv. forsætisráðherra: Hvað er það sem ríkisstjórnin telur að hún geti gert til að stuðla að raunhæfum samningum til þriggja ára þannig að hér skapist friður á vinnumarkaði og við náum að skapa skilyrði fyrir öflugan hagvöxt og kaupmáttaraukningu inn í framtíðina? Ég tel að sú óvissa sem ríkisstjórnin hefur skapað um grunnatvinnuvegina og að við skulum búa við þær aðstæður að fá t.d. fréttir af grundvallarbreytingum á sjávarútveginum í fjölmiðlum en ekki hér á þinginu sé ekki til þess fallin að aðstoða við þá viðkvæmu kjarasamningagerð sem nú stendur yfir.

Ég ber það undir hæstv. forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Hvað er ríkisstjórnin með á prjónunum sem mun tryggja hagvöxt og raunhæfar kauphækkanir á næstu missirum?