139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

lán til Landsvirkjunar.

[10:55]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þær fréttir eru vissulega ánægjuefni að lán séu að skila sér inn í Búðarhálsvirkjun og að við getum farið að hefja þar framkvæmdir. Það er auðvitað einn liður í þeim framkvæmdum sem þurfa að fara að fara af stað til að efla hér atvinnulífið. Landsvirkjun er að skoða sex til átta verkefni í Þingeyjarsýslu til að nýta orkuna þar með heimamönnum sem hefur verið unnið að lengi. Við skulum vona að eitthvað komi út úr því, að það sé hægt að virkja orkuna á því svæði. Það er mjög mikilvægt í þeirri uppbyggingu sem við viljum sjá og í þeim störfum sem við þurfum að skapa vegna þess að við þurfum að skapa hér á næstu þremur árum störf þannig að fjárfesting aukist hér verulega eins og hún þarf að gera, og erum að vinna það með aðilum vinnumarkaðarins.

Landsvirkjun er mikilvægur aðili í allri þeirri uppbyggingu og hlýtur að horfa á alla þá kosti sem hún hefur í orkunýtingunni út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. Hvar er hagstæðast að hún beiti sér að því er varðar t.d. orkumál? Ég hef ekki trú á öðru en að hún geri það. Ég held að það sé ekki rétt eins og mér finnst stundum örla á í umræðum hér að stjórnmálamenn eigi að hafa einhver afskipti af því hvar Landsvirkjun eigi að bera niður og hvar hún eigi að virkja. Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að gefa Landsvirkjun frið til þess að hún fari í þær virkjanir sem hún telur skynsamlegastar út frá viðskiptalegu sjónarmiði.

Það er liðin tíð að þingmenn eigi að beita handafli til að hafa áhrif á t.d. hvar eigi að virkja o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég tek undir með hv. þingmanni, það er ánægjulegt að þetta sé í höfn en það er ekki þar með sagt að hér sé búið að losa um (Forseti hringir.) það að við fáum greiðlega inn lánafyrirgreiðslur erlendis frá. Ég hygg að við þurfum (Forseti hringir.) að klára Icesave-málið [Kliður í þingsal.] til að það sé viðunandi.