139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð að koma hér upp þar sem þingmaður heldur því fram að einhvers konar friður hafi verið rofinn, eða samkomulag um málsmeðferð. Það er alls ekki rétt. Í þessari 215 síðna skýrslu sem nefndin skilaði af sér á sínum tíma eru þau undirstöðugildi sem ætlað er að liggja til grundvallar nýjum vatnalögum lögð hér fram og líka hin sameiginlegu markmið. Eins og fram kemur hér og hv. þingmaður las sjálfur upp var síðan þessum þremur ráðherrum ætlað að setja saman hóp til að smíða frumvarp byggt á þeim leiðum og markmiðum sem hér eru lögð til, þverpólitískt. Það var gert. (TÞH: Nei.) Þessi nefnd var víst skipuð. (TÞH: Nei.) Það stendur hér:

„… verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, (TÞH: Hún var ekki …) vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar.“

Hún var svo sannarlega skipuð. (Forseti hringir.) Það stendur ekkert hér um að hún eigi að vera þverpólitísk.

(Forseti (ÁI): Það er ekki til siðs að vera í samtali við mann í ræðustól.) (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þverpólitísk nefnd setti upp verkefnið og fól þremur ráðherrum að klára það. Það stendur ekkert í 4. gr. um að þverpólitísk nefnd eigi að vinna frumvarpið, heldur að nefnd á vegum þessara þriggja ráðherra eigi að vinna frumvarp byggt á því sem fram kemur í þessari þverpólitísku skýrslu.

Ég fagna því og heyri á hv. þingmanni að ágætlega hefur tekist til. Það var farið eftir þeim leiðbeiningum sem hér eru lagðar til í öllum grundvallaratriðum þannig að ég held að við höfum skilað þessu eins og lagt var upp með.