139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

staða ríkisstjórnarinnar.

[14:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við fengum hér að heyra nokkurs konar „best of“ fjármálaráðherra undanfarinna tveggja ára, allir helstu punktar hæstv. ráðherra um það hvað þetta væri allt óskaplega erfitt hjá honum, hvað þetta væri allt öðrum að kenna og að þetta væri allt að koma þó að það hafi reyndar fátt gerst á þessum tveimur árum hvað varðar til að mynda hagvöxt.

En ég ætla ekki að fara út í þá umræðu, heldur freista þess að fá svar við spurningunni sem ég bar fram hérna áðan, kannski fullítarlega og þá reyni ég að einfalda hana núna. Spurningin er þessi: Felur brotthvarf tveggja hv. þingmanna Vinstri grænna úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sér að ríkisstjórnin verði í betri stöðu til að fylgja þeirri stefnu sem hún hefur fylgt til þessa eins og skilja mátti af orðum hæstv. utanríkisráðherra? Verður ríkisstjórnin sem sagt einbeittari í því og á betra með að gera hlutina eins og hún hefur verið að gera þá, til að mynda hvað varðar skuldamál heimilanna og umsóknarferlið (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu?