139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hinni fyrri spurningu hef ég þegar svarað í ræðunni með þeim orðum að það séu ekki heppilegar aðstæður til að stofna til kolefnisgjalds þar sem við lifum núna í kreppu og eftir hrun. Ég held að ég þurfi ekki að fara meira út í það, það veldur því að tilgangurinn verður tvöfaldur, hann verður annars vegar málefnalegur, skulum við segja, sá að breyta skattheimtunni umhverfinu til verndar og framtíðinni. Hins vegar er tilgangurinn auðvitað að fá inn meiri tekjur í ríkissjóð. Við sendum fjármálaráðherra iðulega af stað til að fá tekjur í ríkissjóð. Þessi sem nú situr hefur staðið sig ágætlega í því og á þakkir skilið fyrir það á sinn hátt.

Um seinni spurninguna er það að segja að aldrei stóð til að Kína og Indland gengju inn í Kyoto-bókunina, en það er mjög mikilvægt að Kína og Indland verði með í næsta áfanga, hvað sem hann verður kallaður, sem á að hefjast eftir 2012. Það er það sem þessari Kaupmannahafnarráðstefnu, COP15 og COP16, þannig að maður tali þetta „sjargon“ sem menn nota í þessum geira, í Kankún og COP17 í Durban er ætlað að leysa. Það er alveg klárt að þessi mál verða ekki leyst til langframa nema með því að Bandaríkin sjálf, hin miklu Bandaríki sem öllu máli skipta í þessum efnum, ekki lengur bara vegna losunarsóðaskaparins í Bandaríkjunum heldur auðvitað einkum vegna hinnar pólitísku forustu sem þau veita heiminum enn þá, verði með. Það er gallinn við Kyoto og var það allan tímann. Sú athugasemd var gerð hér megin Atlantsála en hún var sem betur fer gerð líka hinum megin Atlantsála, af Gore sem þessu hélt mjög fram. Síðan komu aðrir menn í Hvíta húsið. (Forseti hringir.)