139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það stóð alltaf til að Kína og Indland gengju inn í þetta samkomulag. Bandaríkin hafa harðneitað því. Á árabilinu 2005–2006 voru forsætisráðherraskipti í Ástralíu. Nýkjörinn forsætisráðherra gekk beint inn í Kyoto-bókunina, hafði það sem stefnumál í kosningunum og gekk alla leið í því. Hnattræni vandinn er ótrúlega stór, Ástralía er t.d. svo stór heimsálfa andspænis smæð Evrópu. Það er sprikl hjá Evrópubúum að tilheyra þessu loftkerfi sem þeir kalla svo, loftkerfi á þann hátt að það sé verið að búa til verðmæti úr hreinu lofti. Það er búið að búa til einhvern kvóta uppi í himinhvolfinu þar sem einhverjir aðilar telja sig þess megnuga að verðleggja það. Svo gengur það kaupum og sölum. Það er alveg dæmigert fyrir hinn vestræna heim að svo fara hvítu riddararnir sem búa á Vesturlöndum suður í þróunarlöndin, hjálpa þar fátækum þjóðum og fá ígildi loftslagskvóta til að menga meira heima hjá sér. Þetta er ferillinn og þetta er sagan.

Ég hef kynnt mér þessi mál ansi vel og þetta er það sem við stöndum frammi fyrir. Þetta er gervihagkerfi. Þetta er embættismannakerfi sem er búið að búa til. Ég átti að vera fulltrúi á Kaupmannahafnarráðstefnunni svokölluðu en komst ekki. Það var hins vegar stórkostleg sjón að sjá fréttir af henni í sjónvarpinu, þarna komu þessir leiðtogar og hinir miklu menn sem hafa fundið upp þetta kerfi allir saman á einkaþotum og menguðu örugglega meira en stærsta álver í Evrópu rétt á meðan á þessari skemmtihelgi í Kaupmannahöfn stóð.

Hér er líka plan um það hvernig þetta verður í framtíðinni. Það eiga að vera ráðstefnur á hverju ári til að reyna að ná saman um þessi mál. (Forseti hringir.) Leiktjöldin eru hins vegar að mínu mati fallin í þessu því að hér eru fyrst og fremst viðskipti með loft.