139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þingmaður hefur þá trú að verið sé að berjast fyrir íslenskum hagsmunum. Ég er þessu ósammála vegna þess að ég held að við getum gert betur. Ég held að við þurfum sem aldrei fyrr á því að halda að koma sjónarmiðum okkar á framfæri í þessum málum, nákvæmlega eins og allar aðrar þjóðir eru að gera, hvort sem það eru Grænlendingar, ESB, Bandaríkjamenn, sem vilja ekki undirgangast þetta, eða hverjir aðrir sem þarna eru. Það hljómar kannski ekki vel af því að við höfum öll einhverja fallega framtíðarsýn, og nú ætlum við öll að fara að gera það sem er best fyrir heiminn, en á endanum er þetta spursmálið um fyrir hvaða hagsmunum fólk er að berjast. En það er bara þannig, ef við tökum þá hugsjón að berjast fyrir heiminn og fyrir hagsmunum Íslendinga þegar að þessu kemur, að ég hef fulla trú á því að þeir hagsmunir fari svo ágætlega vel saman.

Ég held að við ættum að taka höndum saman. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar er ég ekki með nokkrum hætti að berjast gegn því að við drögum úr losun frá samgöngum eða frá fiskiskipaflotanum okkar heldur benda á að okkur hefur tekist að draga úr losun, t.d. hvað varðar fiskiskipaflotann, og að það eru frábær ný fyrirtæki að koma fram á sjónarsviðið sem eru einmitt að nýta sér tækni til að gera þetta kleift. Þess vegna held ég að við ættum öll að taka höndum saman þar en berjast líka fyrir því sem á ekki að vera eitthvert feimnismál og á ekki að vera slæmt orð, undanþága er ekki eitthvað sem orðspor Íslands stendur og fellur með, ekki ef undanþágan hefur svo ágætt hnattrænt gildi sem þessi undanþága hefur.