139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt að málið er flókið og ég tek undir þá sýn þingmannsins að þetta sé ekki einkamál eða staðbundið mál hverrar þjóðar um sig heldur sé það ekki síður alheimsmál. Sumir stjórnmálamenn mér reyndari og nafntogaðri hafa sagt að við höfum ekki tíma til að bíða eftir Bandaríkjunum, Indlandi eða Kína eða hvaða lönd það eru og það má sannarlega til sanns vegar færa. Staðan er flókin eins og þegar nýr Bandaríkjaforseti, Obama, kemur fram með væntingar sínar og framtíðarsýn þá kemur smám saman á daginn að hann hefur ekki pólitíska innstæðu fyrir því sem hann langar að gera og vill gera. Á heimurinn þá bara að hinkra við meðan Bandaríkin eru að klára sín mál? Það er auðvitað sá grimmi veruleiki sem við blasir.

Það sem ég vísaði í áðan þegar ég gerðist hátíðleg í lok máls míns var fyrst og fremst að á ákveðnum augnablikum á svona stórum fundi finnur maður fyrir alvarleikanum, ef svo má segja, þegar fólk áttar sig á að verkefnið og viðfangsefnið er stórt.

Ég hef mínar efasemdir um viðskiptakerfi með losunarheimildir sem hér hefur verið rætt. Ég er ekki viss um að það sé akkúrat besta kerfið. Það er hins vegar kerfið á Evrópska efnahagssvæðinu og við fáumst náttúrlega við það kerfi sem við erum aðilar að. Mér finnst skipta miklu máli að við séum gagnrýnin á það en nýtum um leið þau amboð og tæki sem við höfum eða höfum aðgang að. Til þess er þessi aðgerðaáætlun sett fram og ég óska eftir samtali við þingið um hana til að við getum eflt almenna vitund um alvarleika málsins. Það er kannski stærsta viðfangsefni okkar að almenningur sé meðvitaður um hve mikilvægt málið er.