139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það hafi komið kirfilega fram í ræðu hv. þingmanns að hún er mjög mikil áhugamanneskja um breytingar á stjórnarskrá og ég ætla ekkert að taka það frá henni né öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þá vil ég bara vekja athygli á því að við erum í miðju slíku ferli og það var talað um það hér í þingsal að þetta væri nokkuð lýðræðislegt ferli. Við héldum þjóðfund, svo er stjórnarskrárnefnd að fara að skila mörg hundruð síðna skýrslu um þann þjóðfund og svo höfum við 25 einstaklinga, sem eru kosnir af 80.000 manns, sem hafa áhuga á því að skila hingað inn, og jafnvel fyrir þjóðina, ég er fylgjandi því, tillögum að nýrri stjórnarskrá. Erum við ekki þá ekki bara sammála um það? Þetta er lýðræðislegt ferli. Þetta er gott ferli. Felur í sér samræður við okkur og við þjóðina. Höldum áfram, segi ég. Ég vona að hv. þingmaður, sem áhugamaður um breytingar á stjórnarskránni, vonandi lýðræðislegar breytingar og í sátt við þjóðina, (Gripið fram í.) sé þá kannski fylgjandi þessari tillögu. (Gripið fram í.)

Víkjum þá að grein Sigurðar Líndals — og skoðun flokkssystur minnar, Vigdísar Hauksdóttur, sem er nokkuð sambærileg, held ég, málflutningi Sigurðar Líndals — þar sem reynt er að halda því fram að við sem aðhyllumst þessa tillögu séum á einhvern hátt ekki meðvituð um þrískiptingu ríkisvaldsins. (Forseti hringir.) Um það vil ég segja að mér finnst það einfaldlega ekki sannfærandi að væna einhvern (Forseti hringir.) sem hér situr að vera ekki meðvitaður um þrískiptingu ríkisvalds.

Svo vil ég segja: Ég fór yfir (Forseti hringir.) þetta í ræðu minni. Þetta var megininntak (Forseti hringir.) ræðu minnar. Ég tel einfaldlega (Forseti hringir.) að við séum á þeim tímapunkti (Forseti hringir.) að vinna úr niðurstöðu Hæstaréttar og við höfum til þess þrjár leiðir.