139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég rakti það einmitt í ræðu minni, og það er ein meginástæða niðurstöðu minnar, að um ráðgefandi samkomu er að ræða. Það hefur alltaf verið lagt upp með það að þetta þing eða ráð, á grunni þjóðfundar og skýrslu stjórnlaganefndar, og vonandi á grunni þjóðaratkvæðagreiðslu, mundi leggja hingað inn tillögu að nýrri stjórnarskrá sem við, 63 kjördæmakjörnir þingmenn, með umboð þjóðarinnar, færum síðan yfir, samþykktum eða felldum eftir atvikum og síðan færu þær stjórnarskrárbreytingar fyrir annað þing þar sem þær yrðu endanlega staðfestar.

Já, þetta vekur undrun mína. Fyrst hv. þingmenn sárt við leggja og sverja að þeir séu einarðir áhugamenn um breytingar á stjórnarskrá fer það að verða spurning: Hvað (Forseti hringir.) hafa menn þá á móti þessu lýðræðislega ferli sem eftir sem (Forseti hringir.) áður felur það í sér að það er Alþingi, (Forseti hringir.) eins og alltaf var lagt upp með, sem hefur þetta endanlega vald?