139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þannig með stjórnlagaþingið og stjórnlagaráðið núna að þetta er stór hópur sem verður á launum í langan tíma. Ég tel það óþarfa bæði út frá efnisatriðum málsins og vegna kostnaðar að fara þá leið, enda átti stjórnlagaráðið og á samkvæmt þessari þingsályktunartillögu einungis að vera ráðgefandi. Ég tel að þingið þurfi ekki frekari ráðgjöf, ekki ráðgjöf af þessum toga, en það er engu að síður sjálfsagt fyrir þingið að kalla til ráðgjafar sérfræðinga, örfáa, nokkra, svipað og gert var á árunum 2005–2007 í störfum stjórnarskrárnefndarinnar. Síðan mundum við á þinginu setja málið í hinn hefðbundna farveg endurskoðunar stjórnarskrárinnar í samstarfi við þennan sérfræðingahóp sem gæti starfað með okkur og við höfum í seinni tíð ekki verið í betri færum til að koma miklu í verk vegna þess að undirbúningsgögnin eru til staðar.

Þetta er grunnurinn í hugmynd okkar um næstu skref. Hv. þingmaður er enn að velta því fyrir sér hvað í raun og veru fólst í niðurstöðu Hæstaréttar og ég skal reyna að taka það fram einu sinni enn. Það sem fólst í niðurstöðu Hæstaréttar var það að allt sem leiddi af kosningunni, allar niðurstöður hennar voru ógildar. (Gripið fram í: Sammála.) Það er í mínum huga tiltölulega skýrt. Þá standa menn frammi fyrir því hvort þeir vilja endurtaka leikinn, hvort þeir vilja gera það á grundvelli sömu reglna eða með nýjum reglum eða bara hætta við allt saman. Um það var Hæstiréttur ekki að fjalla. Það er pólitískt álitamál og við erum þeirrar skoðunar að það sé langbest að hætta við allt saman.