139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur þegar hún ræðir lögbann sýslumannsins í Reykjavík á umfjöllun DV um hlutabréfaviðskipti fjárfestingarfélagsins Horns. Ég held að þetta sé grafalvarlegt mál og ótvíræð tilraun til fyrir fram ritskoðunar sem full ástæða er til að við í þinginu höfum áhyggjur af.

Við lifum í samfélagi sem er í hálfgerðu byltingarástandi eftir fjármálahrunið. Hér var fordæmalaust hrun á fjármálakerfi landsins og reyndar á lífskjörum almennings í leiðinni og það er skýlaus krafa þeirra sem byggja landið að upplýsingar sem eiga erindi við almenning og tengjast hruninu séu opinberar. Hrunið hefur haft áhrif á kjör og hagi þúsunda fjölskyldna í landinu og staðreyndir þurfa að liggja á borðum ef við eigum að draga af þessu hruni réttan lærdóm.

Fyrir þinginu liggur tillaga um að breyta lögum um kyrrsetningu og lögbann og ég held að sú tillaga sé allrar athygli verð. Sömuleiðis vil ég benda á að í frumvarpi til fjölmiðlalaga sem við höfum haft til meðferðar í menntamálanefnd og var afgreitt úr nefndinni í gær er ákaflega mikilvægt ákvæði um vernd heimildarmanna, sem er nýmæli í lögum um fjölmiðla þó að heimildarvernd sé vissulega fyrir hendi í réttarfarslöggjöfinni. Þetta ákvæði í fjölmiðlalögum veitir fjölmiðlamönnum vernd með tilliti til heimildarmanna sem ekki verður aflétt nema með samþykki viðkomandi eða á grundvelli laga um meðferð sakamála. Ég tel reyndar að þetta nýja lögbannsmál á DV gefi okkur tilefni til þess að fara sérstaklega yfir það í nefndinni milli 2. og 3. umr. hvort nauðsynlegt sé að styrkja enn frekar þetta ákvæði um vernd heimildarmanna til að girða fyrir að hægt sé að beita fyrir fram ritskoðun af því tagi sem við erum að verða vitni að í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)