139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það má með sanni segja að í umræðunni á Alþingi í dag rekist eitt vandræðamál ríkisstjórnarinnar á annað. Áðan var rætt um brot hæstv. forsætisráðherra á jafnréttislögum og nú ræðum við annað vandræðamál sem er Íbúðalánasjóður.

Í umræðunni frá hruni hafa menn viljað kenna Sjálfstæðisflokknum um allt sem illa hefur farið í samfélaginu á síðustu missirum en eitt má segja að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei stýrt Íbúðalánasjóði eða þeim ráðuneytum sem með hann fara. Segja má að Íbúðalánasjóður sé skilgetið afkvæmi Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra.

Vandi Íbúðalánasjóðs er tröllvaxinn og ástæðurnar eru margvíslegar. Þær varða bæði sjóðinn sjálfan en skýringanna er ekki síður að leita í aðgerðum núverandi ríkisstjórnar, svo sem ríkisábyrgðum á útlánum sjóðsins sem leiðir til þess að útlánatöp lenda á ríkinu en ekki fjárfestum. Setja má stórt spurningarmerki við útlánastefnu sjóðsins, 110%-leiðina, útlán til leigufélaga, fjármagnskostnaður er miklu hærri en heimilin geta staðið undir og svo mætti lengi telja. Allt þetta hefur valdið miklum vanda sem staðið hefur lengi án þess að ríkisstjórnin hafi gripið til neinna raunverulegra ráðstafana annarra en að reyna að gera út af við séreignarstefnuna sem við sjálfstæðismenn erum ekki til umræðu um.

Þessi tröllvaxni vandi var síðan staðfestur þegar ríkissjóður þurfti um áramótin að leggja Íbúðalánasjóði til hvorki meira né minna en 33 milljarða kr. Nú stendur til að bæta 15 milljörðum við. Þetta eru 48 milljarðar króna, það þýðir 400 þús. kr. rukkun á hverja einustu fjölskyldu í landinu og það sem verra er, við vitum ekki hvort þetta dugar.

Virðulegi forseti. Við höfum ítrekað hér á þinginu (Forseti hringir.) kallað eftir skýrslum, umræðum og rannsóknum á málefnum Íbúðalánasjóðs en ekkert gerist. Það er kominn tími til að taka í taumana (Forseti hringir.) . Verði það ekki gert eru líkur til þess að Íbúðalánasjóður verði eins og risavaxin Byggðastofnun með skelfilegum (Forseti hringir.) afleiðingum fyrir landsmenn alla.