139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir flutti ágæta ræðu, og ég vil þakka henni fyrir það. Hún minntist á ábyrgð hæstv. ráðherra, sem er með eindæmum, minntist m.a. á að hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson hafi borið sem innanríkisráðherra ábyrgð á þeim kosningum sem fóru í vaskinn, en hún minntist ekki á það að hann hafnaði allri ábyrgð, tók ekki á sig neina ábyrgð. Ég vildi gjarnan fá fram hjá hv. þingmanni hvort það sé ekki rétt að innanríkisráðherra á náttúrlega að bera ábyrgð á kosningunum en ekki vísa á eitthvað annað.

En ég vildi aðallega spyrja hv. þingmann um varamenn. Nú er mér ekki kunnugt um að kosnir hafi verið varamenn. Kosningareglurnar eru þannig og svo viðkvæmar fyrir breytingum að ef einhver einn gengur úr skaftinu einhvers staðar framar þá riðlast allt fyrir aftan hann, allt, vegna þess hvernig kosningarnar eru. Ég skil þær reyndar ekki nema akkúrat meðan ég les þær, þannig háttar með minn skilning en það getur vel verið að hv. þingmaður skilji þetta betur og hafi dýpri skilning á þessu. En það er alla vega þannig að ákveðinn maður sem lendir í ákveðnu sæti, þau atkvæði sem ekki nýtast honum fara yfir á þá sem eru á eftir honum í röðinni þannig að þegar einhver vill ekki taka sæti verður allt fyrir aftan hann breytt, eins og hann hafi dottið út, fallið frá eða eitthvað slíkt. Þá hefði þurft að telja allt upp á nýtt og þá hefði komið allt annað fólk inn og sérstaklega varamennirnir. Þess vegna liggur ekkert fyrir um hverjir í rauninni eru varamenn. Þetta kosningakerfi verður því mjög undarlegt ef einhver gengur úr skaftinu.