139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

572. mál
[18:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þingskjali 964 sem er mál nr. 572. Um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989, lögum um framleiðslu verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, ábúðarlögum, nr. 80/2004, og lögum um búfjárhald, nr. 103/2002. Með frumvarpinu er áformað að leggja niður starfsemi Hagþjónustu landbúnaðarins og færa verkefni stofnunarinnar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann getur samið um þjónustu þeirra verkefna sem þar eru undir.

Frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á grundvelli tillagna vinnuhóps sem ráðherra skipaði og setti á stofn þann 14. apríl 2010 til að fara yfir starfsemi Hagþjónustu landbúnaðarins og gera tillögur um það hvernig hún geti best þjónað landbúnaðinum. Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá ráðuneytinu, Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og Hagstofu Íslands. Hópnum var ætlað að leggja mat á starfsemi Hagþjónustu landbúnaðarins og gera tillögur um mögulegar breytingar á starfsemi hennar með það að markmiði að framtíðarfyrirkomulag stofnunarinnar yrði bæði í senn skilvirkt og hagkvæmt, en gera yrði ráð fyrir því að núverandi fjárhagsrammi hennar gæti skerst enn frekar.

Hagþjónusta landbúnaðarins er ein af undirstofnunum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og starfar samkvæmt lögum nr. 63/1989. Hagþjónusta landbúnaðarins er lítil stofnun sem starfað hefur í 20 ár eða frá árinu 1990. Stofnunin er á Hvanneyri og í frumvarpi til fjárlaga 2011 er henni ætlað 24,8 millj. kr. framlag á fjárlögum 2011 umfram tekjur, en hún hefur áætlaðar sértekjur að fjárhæð 3,1 millj. kr. Við stofnunina eru 2,9 stöðugildi.

Í greinargerð með frumvarpinu er tillaga vinnuhóps til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um framtíð stofnunarinnar í minnisblaði, dagsettu 28. júní 2010. Þar er gerð grein fyrir lögbundnu markmiði með rekstri stofnunarinnar og lagt mat á hvernig tekist hafi til næstliðin ár. Einnig er greint frá því að aðrir aðilar sinni tilteknum verkefnum sem lögð eru til stofnunarinnar samkvæmt lögum, þ.e. Bændasamtökin, en um það var gerður samningur haustið 1993. Enn fremur er í minnisblaði vinnuhópsins rakið hvernig íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir umfangsmiklum breytingum sem munu kalla á þörf á ráðgjöf og öflun hagtalna á nýjum sviðum. Þá var þar einnig gerð grein fyrir starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands, einkum áherslum næstliðin ár, t.d. á sviði skipulagsþróunar og byggðaþróunar.

Sökum þess hversu Hagþjónusta landbúnaðarins er aðkreppt fjárhagslega og í ljósi mögulegra samlegðaráhrifa, ef hún yrði sameinuð öðru stjórnvaldi, gerði vinnuhópurinn tillögur að þremur leiðum til stefnumörkunar. Í fyrsta lagi að stofnunin yrði sameinuð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, í öðru lagi að hún yrði sameinuð nýrri „Greiðslustofnun landbúnaðarins“ og í þriðja lagi Matvælastofnun og loks að hún yrði rekin með óbreyttu fyrirkomulagi. Sá fyrirvari var hins vegar á framangreindum tillögum að vinnuhópurinn taldi að óbreytt fyrirkomulag á rekstri stofnunarinnar væri tæplega kostur í stöðunni. Meðal annars var bent á að blikur væru á lofti um auknar fjárheimildir á komandi ári.

Tillögur vinnuhópsins hafa verið til skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu eftir að þær voru afhentar ráðherra 28. júní 2010. Eftir að hafa íhugað málið vel og vandlega út frá öllum þeim sjónarmiðum sem þar komu fram hef ég ákveðið að leggja til að Hagþjónusta landbúnaðarins í núverandi mynd verði lögð niður og verkefnum verði ráðstafað til annarra aðila og hefur þar verið horft til Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er mögulegt að tryggja eðlilegan framgang á mikilsverðum verkefnum Hagþjónustunnar með sveigjanlegum hætti. Eins og ég nefndi áðan er gert ráð fyrir að Landbúnaðarháskóli Íslands taki við verkefnum stofnunarinnar að miklu leyti en auðvitað á eftir að semja um það. Þó er í gildi núna þjónustusamningur milli ráðuneytisins og Landbúnaðarháskólans um þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðrar ráðgjafar fyrir árin 2009–2012. Með tilfærslu verkefna frá Hagþjónustu landbúnaðarins er gert ráð fyrir því að skólinn verði styrktur á sviði landbúnaðarhagfræði og hagrannsókna og hlúð að kennslu á því sviði. Einnig kemur til greina að gera þjónustusamninga um fleiri verkefni sem að því lýtur.

Frumvarpið er í fimm köflum og 17 greinum, en með því eru m.a. lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 63/1989, en ekki er gert ráð fyrir því að lögin verði felld úr gildi. Hins vegar er áformað að stofnunin verði lögð niður, verkefni hennar flutt og ráðstafað eins og áður hefur verið greint frá.

Einnig eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, ábúðarlögum og lögum nr. 103/2002, um búfjárhald, sem óhjákvæmilegt er að gera vegna tilvísana í þeim lögum í lög nr. 63/1989, eða starfsemi stofnunar að öðru leyti.

Samkvæmt frumvarpinu er, eins og ég segi, gert ráð fyrir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði samningsaðili um þau verkefni sem um er að ræða og lögð verði áhersla á að standa vörð um, leitað verði eftir samkomulagi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri um þau verkefni sem mikilvægt er að halda áfram og styrkja þar með einnig starfsemi Landbúnaðarháskólans á því sviði.

Hagþjónusta landbúnaðarins hefur að mínu mati unnið afar gott og mikilvægt starf í þágu íslensks landbúnaðar og bænda í landinu á þeim tíma sem stofnunin hefur starfað, þ.e. frá 1990, en eins og frumvarpið gerir ráð fyrir verður þessi breyting á.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.