139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

jafnréttismál.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi hæstv. forsætisráðherra. Pólitísk ábyrgð er ráðherrans. Ráðherrann getur ekki bent á einhvern sérfræðing sem hún fékk sér til aðstoðar við að komast að niðurstöðu í málinu. Hafi viðkomandi sérfræðingur, alveg sama hversu margar prófgráður viðkomandi hefur haft, komist að rangri niðurstöðu er ábyrgðin ráðherrans og það gengur ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að tína það til sem einhver rök í þessu máli að það sé í lagi að ganga gegn niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála vegna þess að sérfræðingur sem kom að málinu hafi komist að annarri niðurstöðu. Þetta stenst enga skoðun. Ábyrgðin er ráðherrans.

Ráðherrann á að meta umsækjendur á grundvelli jafnréttislaga. Hann verður að leggja sjálfstætt mat á málið á grundvelli laganna og taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort sérfræðingurinn hafi komist að réttri niðurstöðu eða ekki. Hann getur ekki tekið niðurstöðu sérfræðinganna athugasemdalaust án allra fyrirvara og lagt hana til grundvallar (Forseti hringir.) niðurstöðu í ráðningarferli eins og þessu og skotið sér síðan á bak við slíka niðurstöðu þegar spurt er um pólitíska ábyrgð. (Forseti hringir.) Það stendur ekki steinn yfir steini í svona rökstuðningi.