139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

jafnréttismál.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ber vissulega ábyrgð á þeirri ákvörðun sem var tekin í þessu máli. En ég hafði mér til halds og trausts sérfræðinga sem unnu þetta ráðningarferli sem stóð í nokkrar vikur. Það hefur iðulega verið úrskurðað í málum, ekki bara jafnréttismálum, af úrskurðarnefndum. Þar er oft um að ræða matskennd ákvæði og ráðherrar hafa aftur og aftur staðið frammi fyrir því að hafa brotið lög, ekki bara jafnréttislög heldur önnur lög líka, og þá skiptir öllu máli hvernig málsástæður eru og hvernig ráðherrann stóð að málinu. Stóð hann faglega að málinu eða stóð hann ekki faglega að málinu? Beitti hann pólitískri niðurstöðu í ákvörðunartöku sinni eða hvernig gerði hann það? Það er það sem skiptir máli í þessu öllu saman. (Gripið fram í.)

Núna þurfum við að fara yfir málið alveg frá grunni vegna þess að þeir sérfræðingar sem voru í þessu máli af minni hálfu beittu greinilega annarri aðferð en jafnréttisráðherra (Forseti hringir.) krefst og fyrir það þarf að svara. (Gripið fram í.) Þegar hæstv. ráðherra talar um úrskurði verður hann líka að fara yfir það hvernig hefur verið farið með jafnréttisúrskurði (Forseti hringir.) í gegnum tíðina. Nokkrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa komið þar við sögu [Kliður í þingsal.] að hafa brotið jafnréttislög (Forseti hringir.) og ég hef ekki heyrt þingmenn Sjálfstæðisflokksins þá kalla eftir afsögnum. (Gripið fram í: Hvað ætlar þú að gera?) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn og hæstv. ráðherra til að virða tímamörk.)