139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

launakjör hjá skilanefndum bankanna.

[10:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi svarað málinu eins skýrt og hægt er að svara því. Ég vil að settar verði efnisreglur sem tryggi að skilanefndir og slitastjórnir fari að góðum viðskiptaháttum en ég tel ekki rétt, og aldrei rétt, að ríkisvaldið hlutist til um meðferð þrotabúa þannig að það geti mögulega skaðað rétt kröfuhafanna. Það má aldrei gerast. (Gripið fram í: … eignir …) Þarna þarf að feta vandratað meðalhóf og ég vonast til þess að það frumvarp sem kemur fram gangi eins langt og hægt er að ganga í því að setja almennar efnisreglur að þessu leyti. Ég vil hins vegar ekki lofa upp í ermina á mér og gefa ítarlegri lýsingar á efni þess. Það verður að bíða þess að það komi fram.

Aðalatriðið er að ábyrgð þarf að vera ljós og það þarf að koma í veg fyrir að menn geti skammtað sér kjör og það þarf að koma í veg fyrir að menn semji við sjálfa sig. Í því eru almannahagsmunir (Forseti hringir.) og það er í samræmi við góða viðskiptavenju og almennt regluverk í landinu.