139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til þess að gefa Alþingi skýrslu um úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 3/2010 og reifa þau sjónarmið sem málið varðar. Ég vil í upphafi máls míns taka það skýrt fram að ég tek niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála alvarlega enda þótt hún hafi komið mér á óvart og tel afar mikilvægt að fara ítarlega og faglega yfir stöðu mála í framhaldi af henni. Það erum við byrjuð að gera með ýmsum aðilum. Þetta vil ég fullvissa þingheim um á þessu stigi og fram undan er að fara yfir stöðu mála með ríkislögmanni, kæranda og fleirum. Það eru margar hliðar á málinu og við verðum að vega og meta hvaða áhrif úrskurðurinn getur hugsanlega haft á vinnubrögð eða jafnvel löggjöf í framtíðinni.

Í ljósi þess að hér er um sérstakan úrskurð að mörgu leyti að ræða tel ég fullt tilefni til þess að forsætisráðuneytið fái hlutlausan rýnihóp að málinu með fulltrúum úr háskólasamfélaginu og fleirum sem fari annars vegar yfir matsferli ráðuneytisins í heild sinni og hins vegar úrskurð kærunefndar og meti hvernig eigi að bregðast við honum. Mikilvægt er að bera þessar ólíku niðurstöður saman og draga fram að hvaða leyti þær byggja á mismunandi viðmiðum. Okkur er bæði rétt og skylt að draga lærdóm af þessu á hvern veg sem sá lærdómur verður þannig að ekki leiki vafi á því að menn séu að beita réttum vinnubrögðum í hvívetna.

Það er afar mikilvægt fyrir stjórnsýsluna í heild að þetta sé ekki óskýrt. Vel má vera að niðurstaðan verði sú að úrskurður kærunefndar jafnréttismála sé að öllu leyti hin eina rétta niðurstaða og þar með vegvísir til framtíðar á sviði jafnréttismála. Ýmislegt hefur komið fram í umræðu um þetta mál og menn hafa reynt að slá pólitískar keilur, m.a. varðandi versnandi stöðu jafnréttismála. Þessar fullyrðingar standast engan veginn, sem betur fer vil ég segja og nefni ég hér nokkur skýr dæmi.

Fullkomið jafnrétti ríkir í hópi ráðuneytisstjóra í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldisins og gegna fimm konur og fimm karlar þessum tíu æðstu embættum innan stjórnsýslunnar. Þetta er gjörólíkt því sem var í tíð þeirra sem nú hafa hæst þegar karlar voru í miklum meiri hluta í þessum hópi.

Tala skrifstofustjóra innan Stjórnarráðsins er að þokast í sömu átt og hefur hlutfall kvenna jafnt og þétt aukist undanfarna mánuði og missiri og munurinn minnkað úr því að konur séu rúm 30% af þeim hópi í að þær nálgist nú 36%. Þegar á heildina er litið gegna konur nú samkvæmt þessum tölum 39% æðstu embætta innan Stjórnarráðsins samanlagt og er það umtalsverð framför frá því á árunum 2009 þegar þetta hlutfall var rúmlega 30%. Munurinn er því hátt í 10% á þeim skamma tíma sem ríkisstjórnir mínar hafa starfað og ég er stolt af þessum árangri í jafnréttismálum.

Virðulegi forseti. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að þrjár konur, þ.e. ég sem forsætisráðherra, ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu og mannauðsráðgjafinn sem líka er kona, hafi eina einustu mínútu gert sér í hugarlund að þær væru að brjóta jafnréttislög? Dettur einhverjum heilvita manni í hug að ég sem fyrrverandi jafnréttisráðherra og þær konur sem unnu að þessu máli hafi vísvitandi brotið gegn jafnréttislögum með þessari skipun í embætti? Dettur einhverjum heilvita manni í hug að við höfum látið kynferði ráða valinu en ýtt öllu öðru til hliðar og höfum frekar viljað fjórða karlinn í hóp skrifstofustjóra en að bæta þar við konu? Ég held að allir hljóti að sjá að þetta eru fráleitar hugleiðingar.

Það er m.a. í þessu ljósi sem niðurstaðan kom okkur öllum á óvart og okkur var mjög brugðið við hana og teljum við okkur þekkja jafnréttislögin hér á landi mjög vel. Okkur var brugðið vegna þess að við vorum sannfærð um að málið hefði verið unnið fullkomlega faglega og málefnalega frá upphafi til loka þess.

Ég fékk í hendur greinargerðir og minnisblöð frá mjög reyndum og viðurkenndum ráðgjafa og embættismönnum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að sá sem skipaður var var hæfastur í hópi 41 umsækjanda og að mér bæri í ljósi þess, lögum samkvæmt, að skipa hann í embættið.

Hver var staða mín við slíkar aðstæður, hæstv. forseti? Hver var staða mín? Ég bið hv. þingmenn og ekki síst þá sem gegna eða gegnt hafa embættum ráðherra að hugleiða það. Hver hefði staða mín verið ef ég hefði lagst gegn eindregnum gögnum og samhljóða ráðleggingum og ákveðið að skipa samflokkskonu mína sem sérfræðingur taldi eftir ítarlegt ferli að væri fimmta í röðinni af þeim fimm umsækjendum sem hæfastir voru metnir? Átti ég þarna að ganga gegn mjög afdráttarlausum og skýrum greinargerðum og hunsa þær?

Hefði ekki mátt flokka slíka ákvörðun sem geðþóttaákvörðun, jafnvel pólitíska?

Þingmenn hafa hér í ræðustól rifjað upp ummæli sem ég lét falla á árinu 2004 í tengslum við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, hefði brotið gegn jafnréttislögum þegar hann skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti hæstaréttardómara. Ég get engan veginn fallist á þá afstöðu að það tilvik sem hér er til umræðu sé sambærilegt því máli. Í máli Björns var staðan sú að samkvæmt faglegri og lögbundinni hæfnismatsumsögn Hæstaréttar töldust allmargir umsækjendur um stöðuna hæfari en sá sem síðan var skipaður. Þessu öllu kaus þáverandi dómsmálaráðherra að líta fram hjá við skipun í embættið. Þessa ráðningu er ekki hægt að kalla annað en pólitíska en ekki faglega, eins og í því máli sem við ræðum hér í dag. Ég hefði sannarlega hugleitt afsögn ef hægt hefði verið að brigsla mér um pólitíska ráðningu í þessu tilviki.

Engu sambærilegu er til að dreifa í þessu máli. Og ég spyr enn og aftur: Átti ég að hunsa faglegt mat og á hvaða grundvelli hefði ég getað byggt slíka niðurstöðu? Nei, auðvitað átti ég ekki að hunsa slíka niðurstöðu, ekki frekar en Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, átti að hunsa umsögn Hæstaréttar um faglega hæfni umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara á sínum tíma. Enda mátti leiða að því sterkum líkum að slík ákvörðun af minni hálfu hefði verið talin ómálefnaleg og ólögmæt.

Virðulegi forseti. Það mál sem hér um ræðir var unnið af bestu samvisku og af heilindum. Byggt var á faglegu verklagi sem er alþjóðlega viðurkennt og því fylgt frá upphafi til enda. Allt það ferli var að sjálfsögðu unnið á mína ábyrgð. Bein aðkoma mín að málinu var hins vegar fyrst og fremst sú að leggja áherslu á að hæfasti umsækjandinn yrði skipaður og að sérstaklega væri að því gætt að jafnréttislög yrðu í alla staði virt.

Allir umsækjendur í umsóknarferlinu voru metnir kerfisbundið. Gætt var jafnræðis, allir fengu staðlaðar spurningar og jafnlangan tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Það sem er sérstakt í þessu máli og við þurfum nú að fara ítarlega yfir er að kærunefnd jafnréttismála ýtir til hliðar greiningu ráðgjafa og embættismanna á kröfum og hæfni sem viðkomandi skrifstofustjóri þurfti að geta gegnt í starfinu og byggir niðurstöðu sína á sjálfstæðu mati á umsækjendum sem byggðist á framlögðum gögnum en ekki á viðtölum við umsækjendur.

Hæfnismat og ákvörðun um skipan í embætti byggir jafnan á fjölmörgum atriðum sem þarf að vega og meta. Slíkt mat er bæði flókið og vandmeðfarið. Það sýnir sig e.t.v. best hversu flókið þetta mat getur verið að Hæstiréttur hefur einnig í allmörgum dómum hnekkt niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála um að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum við ráðningu í starf. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég bendi á margt sem sérstakt í úrskurði kærunefndar vil ég undirstrika að ég tek undir það að mikilvægt er að átta sig á þessu máli út frá öllum hliðum og meta hvort ástæða sé til að breyta vinnubrögðum eða jafnvel löggjöf eins og ég rakti í upphafi máls míns. Ég ítreka það sem ég sagði hér að framan, ráðuneytið taldi sig frá fyrsta stigi til loka vera að vinna að fullu í samræmi við lög og þá m.a. jafnréttislög og það var ég sannfærð um á lokastigi, enda spurði ég sérstaklega eftir þessu á þeim tímapunkti áður en ég staðfesti ráðninguna.

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að annarri niðurstöðu í málinu og úr því verðum við að vinna jafnréttinu til framdráttar. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég hef áður sagt, ég hef hreina samvisku í þessu máli þar sem ég tel að faglega hafi verið staðið að málinu. Það breytir því ekki að mér þykir niðurstaðan mjög miður og tek hana alvarlega. Það skiptir nú mestu að bregðast rétt við (Forseti hringir.) og vinna faglega úr málinu í framhaldinu af bestu samvisku jafnréttisbaráttunni til framdráttar.