139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í umræðunni í gær kom að mínu mati mjög skýrt fram að niðurstaðan í þessu máli var áfall fyrir stjórnarliða. Í svörum hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, og hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur kom fram að þær voru slegnar yfir þessari niðurstöðu. Þetta eru konur sem hafa, alveg eins og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sett jafnréttismál á oddinn, hafa barist fyrir auknu jafnrétti og telja það eina af lykilforsendum þess sem þær gera í starfi sínu sem stjórnmálamenn.

Ég tel að í ræðu hæstv. forsætisráðherra hafi komið mjög skýrt fram að hún tekur þetta mjög alvarlega, þetta er persónulegt áfall fyrir hana. Mér finnst hins vegar að við sem höfum tekið til máls í dag og í gær þurfum að velta fyrir okkur hvort þessi niðurstaða eigi að vera enn einn rökstuðningurinn fyrir því að við eigum að hætta að hugsa um jafnréttismál. Við heyrum allt of oft talað um að við eigum að hætta að hugsa um kynjaða hagstjórn vegna þess að hún virkar ekki, vegna þess að við náum ekki þeim markmiðum sem kynjaðri hagstjórn er ætlað, þar með eigum við bara að hætta að hugsa um þetta. Menn tala um að það sé vegna þess að það er verið að segja upp fleiri konum en körlum og þá sé bara kjaftæði að huga eitthvað að kynjaðri hagstjórn. (Gripið fram í.)

Ég held að þetta sé einmitt rökstuðningurinn fyrir því hvað það skiptir gífurlega miklu máli að við höldum áfram að ræða um jafnréttismál, að við höldum áfram að fara af stað með verkefni sem tengjast jafnréttismálum karla og kvenna vegna þess að það eru svo mörg mál sem við rekumst á hér dagsdaglega sem sýna og sanna að það er ekki jafnrétti í raun í íslensku samfélagi. Við sjáum það við úthlutun styrkja þar sem einmitt er talað um að það sé farið eftir mjög faglegum vinnubrögðum og faglegum viðmiðum. Samt sjáum við að konur eru kannski 20–30% þeirra sem sækja um styrki og þær fá mun lægri upphæðir er karlar. Við sjáum það í fjölmiðlum að af einhverri ástæðu endurspeglast staða okkar á framboðslistum og staða okkar innan stjórnmálaflokkanna ekki í fjölda viðmælenda í fréttum og annarri umfjöllun fjölmiðla. Hver er ástæðan fyrir þessu?

Launamunurinn hefur ekki minnkað og konum hefur svo sannarlega ekki fjölgað í stjórnum og stjórnendastörfum í viðskiptalífinu. Allt þetta segir okkur að það skiptir gífurlega miklu máli að við höldum áfram að vinna í jafnréttismálum. Það er ekki nóg að setja lögin, heldur þurfum við sífellt, á hverjum einasta degi, að hafa þetta í huga.

Við sjálf fengum ansi duglega áminningu þegar við kusum nýlega í landskjörstjórn. Við þurfum að tala saman því að þetta er eitt af sjónarmiðunum sem skipta gífurlega miklu máli þegar við sjálf tilnefnum í nefndir og ráð. Þar stóð Alþingi sig ekki.

Hér ætla ég aðeins að fá að nefna það að ég hef í gegnum árin bæði menntað mig í starfsmannastjórnun og starfað mjög mikið við ráðningar á fólki. Ég stoppaði við það bæði í rökstuðningnum í gær og í rökstuðningi hæstv. ráðherra í ræðunni að hugsanlega hafi hér komið inn matsatriði sem hafði ekki með kynið að gera, heldur pólitísk tengsl viðkomandi umsækjanda sem kærði málið. Það var hugsanlega talið, þó að enginn hafi kannski rætt það beint, að ekki hefði verið forsenda fyrir því að ráða viðkomandi einstakling þó að hann hefði verið jafnhæfur vegna þess að tengslin voru of mikil, að við séum orðin of hrædd við að taka umræðuna um það að við sem störfum í stjórnmálum (Forseti hringir.) getum hugsanlega bara verið ansi hæf í því sem við gerum.