139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú fyrst að játa það fyrir hv. þingmanni að ég get gjarnan rætt um mál, hin ýmsu mál, án þess að tengja Evrópusambandsumsóknarferlið inn í þau en mér virðist á stundum að það sé a.m.k. í hugum sumra hv. þingmanna þannig að ESB-umsóknin sé dregin inn í flest önnur mál. Ég tengi þessi mál tvö ekki saman.

Það hefur lengi verið viðhorf míns flokks að það þurfi sérstaklega að huga að málefnum norðurslóðanna og þess vegna fagna ég þessari tillögu sérstaklega. Í tillögunni er gert ráð fyrir og segir með beinum hætti, með leyfi forseta:

„… að styðja réttindi frumbyggja á norðurslóðum í nánu samstarfi við samtök þeirra og styðja beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins …“

Í breytingartillögu frá utanríkismálanefnd er enn frekar, eins og ég gerði grein fyrir í máli mínu, hnykkt á þessu varðandi frumbyggjana með því að bæta við setningu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Einnig skal stuðlað að varðveislu hinnar sérstöku menningar og lífshátta frumbyggja sem þróast hafa á norðurslóðum.“

Ég tel mikilvægt að gera það og að styðja við baráttu þeirra, þar með talið í þeim málefnum sem hv. þingmaður nefndi. Ég lít hins vegar ekki svo á að við Íslendingar séum frumbyggjar, ég held að fáir geri það. Þau viðhorf sem hér birtast og eiga við um frumbyggjana, m.a. að því er varðar hval- og selveiðar, er ekki að mínu viti hægt að heimfæra upp á Íslendinga með sambærilegum hætti. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi og mjög margir í mínum umhverfissinnaða stjórnmálaflokki að hvalveiðar Íslendinga þjónuðu ekki neinum tilgangi, alls ekki efnahagslega eða viðskiptalega og væru ekki ráðlagðar frá (Forseti hringir.) umhverfissjónarmiði. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að skipta um kúrs hvað varðar hvalveiðistefnu okkar en það á ekki (Forseti hringir.) með þeim hætti við um hagsmuni frumbyggja á norðurslóðum.