139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

frumvarp um persónukjör.

[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Núna um miðja vikuna eru síðustu forvöð að skila inn frumvörpum sem eiga að koma fyrir þetta þing. Í stjórnarsáttmálanum er talað um að ríkisstjórnin ætli að leggja fram frumvarp til laga um persónukjör. Slíkt frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki afgreiðslu af ýmsum ástæðum. Fyrst tafðist það vegna þess að önnur mál þóttu mikilvægari og síðan þótti fólki komið of nálægt sveitarstjórnarkosningum til að breyta kosningalöggjöfinni. Og alltaf er talað um að ekki megi breyta kosningalöggjöfinni á síðustu stundu sem er ábyggilega rétt.

Í plaggi sem kom frá hæstv. innanríkisráðherra í haust kom fram að leggja ætti fram frumvörp til laga um persónukjör, bæði í sveitarstjórnarkosningum og til alþingiskosninga. Nú er ég eiginlega að vona að hæstv. ráðherra segi bara já þegar ég spyr hann: Verður frumvarp lagt fram í þessari viku?