139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

álversframkvæmdir í Helguvík.

538. mál
[16:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Raunveruleikinn blasir við, segir hæstv. ráðherra varðandi Helguvík. Og ástæða er til að vekja athygli á því að nú virðist sem raunveruleikinn blasi loks við bæjarstjóranum í Reykjanesbæ. Hann skrifar í Víkurfréttir í gær, 27. mars, grein um Helguvík og spyr: Hvað tefur? Í þessari grein svarar bæjarstjórinn því til að það sé ekki bara þessi ríkisstjórn og óljós skilaboð hennar, sem hann kallar svo, um þjóðnýtingaráform eða vilja til að byggja upp álver heldur nefnir hann einnig erfiðari fjármögnun í kreppunni, ágreining í samningum á milli HS Orku og Norðuráls og skort á virkjunarheimildum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, á Reykjanesi og reyndar víðar. Þetta er athyglisvert. Við höfum verið að reyna að benda á þetta árum saman en nú hafa augu manna opnast í Reykjanesbæ og það er vel.