139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

tóbaksvarnir.

579. mál
[15:15]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að það skuli hafa slegið svo út í fyrir okkar ágæta velferðarráðherra að hann sé að mæla fyrir þessu frumvarpi um tóbaksvarnir. Tóbaksvarnir, af hverju skyldi maður vera á móti tóbaki? Það inniheldur nikótín, það er örvandi og hressandi og gefur góða líðan. Um það get ég vitnað vegna þess að síðan ég var 14 hef ég verið nikótínfíkill. Þegar ég var að alast upp reykti allt sem lífsanda dró hér á Íslandi og við drengirnir gátum ekki beðið eftir því að byrja líka. Ég byrjaði að reykja löngu áður en efnahagur minn leyfði það með því að reykja þurrkaða njóla sem var hægt að komast í í Vatnsmýrinni á þeim tíma. Síðan þróaðist þetta náttúrlega yfir í að reykja tóbak, amerískt tóbak sem er mun mildari reykur af en af njólanum og sennilega ekki eins hættulegur, enda tók það áratugi fyrir læknavísindin að staðfesta það með óyggjandi hætti að tóbaksreykur væri skaðlegur heilsu manna.

Þegar þau tíðindi bárust úr heimi vísindanna að reykingamenn væru að leggja sig í bráða lífshættu fór ég að hugsa minn gang vegna þess að ég hef alltaf haft frekar gaman af lífinu öðrum þræði og langaði ekki til að stytta það að óþörfu. Það er skemmst frá því að segja að ég reyndi tugum sinnum að hætta að reykja. Ég var orðinn svo hræddur við að fá lungnakrabba, mér fannst á hverjum morgni að það væri hrygla í mér og lungun væru undirlögð af einhverjum meinvörpum, að loks tókst mér að hætta að reykja með því að venja mig á lyf sem þá voru komin á markað fyrir nokkru og seld dýrum dómum af lyfjafyrirtækjum og heita nikótíntyggjó. Á þessu nikótíntyggjói hélt ég mér gangandi og fullnægði … [Háreysti í þingsal.] — Get ég fengið augnabliksnæði til að tala hérna, forseti? Takk fyrir. — Mér tókst að halda nikótínþörfinni fullnægðri með því að nota þetta nikótíntyggjó sem kemur frá risavöxnum lyfjafyrirtækjum tveimur, alþjóðlegum, fjölþjóðlegum fyrirtækjum. Þetta hafði verulega skaðleg áhrif á efnahag minn, ég veit ekki um heilsuna, en efnahagurinn beið mikinn hnekki við þetta vegna þess að nikótíntyggjóneysla mín var um 15 þús. kr. á hverjum mánuði og leitaði ég þó í öllum apótekum höfuðborgarsvæðisins að bestu tilboðunum og tuggði einungis 2 milligramma tyggjó sem er hálfdrættingur í styrkleika á við það sem hörðustu fíklarnir þurfa en það er 4 milligramma. Það er mun dýrara.

Ég á því láni að fagna að komast stundum til útlanda og sérstaklega þykir mér vænt um að komast til Svíþjóðar og Noregs en þar eru landshættir slíkir að þar eru löglegt að nota sérstaka tegund tóbaks sem er kallað munntóbak. Þetta munntóbak er mun ódýrara en nikótíntyggjó og áhrifin að mínu mati mun betri og notalegri á allan máta, fyrir utan það að maður sparar orku með því að þurfa ekki að vera sífellt japlandi sem er sosum ekki prýði á framkomu manns. Til samanburðar vil ég nefna að til að kosta þessa fíkn mína, nikótínfíkn, þar sem ég hef aðgang að munntóbaki mundi ég giska á að yfirfært í íslenskar krónur sé það innan við 2 þús. kr. á mánuði meðan lyfjafyrirtækin vilja, til að halda nikótínþörfinni í skefjum, taka um 15 þús. kr. Þar inn í er náttúrlega álagning smásöluaðila. Allt vel um þetta.

Þannig er að nikótíntyggjó er líka valkostur í löndum eins og Noregi og Svíþjóð en það eru Evrópusambandsreglur sem syfjað Alþingi lögleiddi hérna einhvern tímann síðla nætur og lét það yfir sig ganga að munntóbak væri bannað á Íslandi meðan þingmenn í Noregi og Svíþjóð voru vel vakandi þegar sama tilskipun var innleidd í þeim löndum og tóku undanþágu út fyrir munntóbak, einkum og sér í lagi af því, og ég er ekki að hafa þetta að gamanmálum, að læknisfræðilega liggur ekki fyrir sönnun þess að munntóbak hafi valdið dauða eins einasta manns, ekki eins einasta.

Það sem gerir það að verkum að nikótíntyggjó er leyfilegt en ekki munntóbak er mjög einfalt. Það er vegna þess að lyfjafyrirtækin sem framleiða nikótíntyggjó eru það voldug að þau geta með áróðri sínum og þrýstingi náð markaðsaðstöðu þar sem þetta vesæla munntóbaksfyrirtæki, sem er í Svíþjóð, hefur ekkert bolmagn til að kaupa sér viðlíka vinsældir, viðlíka umfjöllun, og kaupa sig í álit hjá stjórnmálamönnum.

Ég vil benda á að þetta með tóbaksvarnir er verulega heimskulegt. Það sem ég er sammála velferðarráðherranum um er að ég vil sjúkdómavarnir. Ég vil krabbameinsvarnir. Ég veit að reykingar eru hættulegar, ég styð reykingavarnir. En ég spyr: Hvar er lógíkin í því að engin lög á Íslandi banna mér að fara út í búð og kaupa mér sígarettupakka og éta upp úr honum sígaretturnar? Ég get keypt mér vindlapakka og ég get japlað, stungið vindlunum upp í mig og jóðlað á þeim allan liðlangan daginn og þetta er fullkomlega löglegt. Ég veit ekki hvort það er siðlaust en löglegt er það. Þegar kemur að sérhönnuðu tóbaki, sérhönnuðu af helstu tóbaksérfræðingum sem fáanlegir eru í Skandinavíu, sérhönnuðu til að nota sem munntóbak, er það bannað. Þá skal löggjafinn stíga fram og banna þá ódýru og saklausu og hættulausu skemmtun eða nautn að stinga upp í sig sérhönnuðu munntóbaki. Hvar er lógíkin í þessu, ef ég má spyrja virðulegan velferðarráðherra? Fyrir hvern er þetta gert? Þetta er gert til þess að efla markaðsstöðu lyfjafyrirtækja. Þetta er gert vegna þess að menn trúa þeim hamslausa áróðri sem frá þeim kemur að hin eðlilega og náttúrulega tóbaksafurð, munntóbakið, skuli þurrkast burt af markaðnum sem samkeppnisaðili.

Þetta er svo dæmalaus forræðishyggja, þetta er svo gersamlega úr takt við alla rökrétta hugsun að ég lýsi furðu minni á að jafnágætur og velviljaður maður og okkar ágæti velferðarráðherra skuli treysta sér til að tala fyrir þessu frumvarpi. Ég mun berjast gegn því eins og ég lifandi get.