139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég velti fyrir mér í tengslum við þá íþróttafélagaumræðu sem kom fram áðan ýmist með bandstrikum eða öðru að til skamms tíma var til sambræðingur íþróttafélaga á Norðurlandi sem hét Þór/KA/KS — en með skástrikum. Ég velti fyrir mér hvort það væri betra að það væri skástrik í nafni þessarar stofnunar. Líklega væri það ekki, en það eru mörg önnur svona nöfn, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, sem eru ekki mjög lýsandi. Ég nefni til að mynda Fimleikafélag Hafnarfjarðar þar sem margar íþróttir eru stundaðar en fimleikar eru ekki hryggjarstykkið í því félagi og ég held að það vefjist kannski fyrir sumum að horfa til þess að það félag heiti því nafni áfram. Ég held að það að bjóða upp á þessa (Forseti hringir.) lausn á nafni geti jafnvel hjálpað til við sameininguna.