139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[18:00]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að störfum fækki. Í þessu tilviki eru flestir eða ég geri ráð fyrir að mjög margir af starfsmönnunum séu með sérhæfða menntun og það er mjög vont að missa þá starfsmenn út, ef til þess kæmi. En ég minni enn og aftur á að ekki er gert ráð fyrir fækkun starfa, það er gert ráð fyrir því, eins og fram kom í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umr., að nýja embættið verði innan fjárheimilda og það séu ákveðnir möguleikar á að nýja stofnunin gæti verið betur til þess fallin að mæta hugsanlegum sparnaðarkröfum. Þar erum við stödd.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann talar mikið um húsnæðiskostnað, hvað honum finnist um þá húsaleigusamninga sem hér voru gerðir fyrir sjö, átta árum sem var algengt þá að væru gerðir til 25 ára og óuppsegjanlegir.